Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki tekist að hafa uppi á manninum eða mönnunum sem hafa ógnað börnum og jafnvel ráðist á þau í Hafnarfirði að undanförnu.
Fjögur slík tilvik hafa komið upp á síðustu dögum og vikum, tvö við Víðistaðaskóla, eitt við Engidalsskóla og eitt nærri Lækjarskóla.
„Fólk heldur áfram að hafa samband við okkur og láta okkur vita ef um aðfinnsluvert háttalag og grunsamlegar mannaferðir er að ræða. Við erum ekki búnir að hafa uppi á þeim sem verið hafa að verki í þessum tilvikum og hugsanlega eru þeir fleiri en einn,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.
Hann segir að lögreglan hafi verið með aukið eftirlit og þá hafi verið foreldrarölt í gangi við skólana í Norðurbænum.
Á Facebook-hópnum, Miðbærinn minn, greindi einn meðlimur hans frá því í gær að maður hafi elt 11 ára stúlku hans inn á stigagang í verslunarmiðstöðinni Firðinum. Stúlkan hljóp upp á fimmtu hæð og var þar hleypt inn á skrifstofu þar sem hún beið þar til lögreglan kom. Í færslunni kemur fram að maðurinn hafi kallað á eftir stúlkunni á tungumáli sem hún skildi ekki.
„Við fengum tilkynningu um þennan mann og við náðum tali af honum. Hann hafði verið að eltast við einhverja krakka við verslunarmiðstöðina. Þetta er erlendur ríkisborgari sem hefur verið búsettur hér á landi frá árinu 2008. Við vitum hver hann er og teljum hann ekki vera manninn sem við erum að leita að í tengslum við hin málin,“ segir Skúli.
Skúli segir að haldið sé áfram að rannsaka þessi fjögur atvik sem upp hafa komið við skólana í bænum. Hann segir að lögreglan óski eftir vísbendingum og með því takist vonandi að hafa hendur í hári þeirra aðila sem veist hafa að börnunum.