Langt hret og óvenjuleg ofankoma

Vindaspáin á landinu á miðnætti.
Vindaspáin á landinu á miðnætti. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðrið mun leika landann grátt næstu daga. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá veðurvakt Bliku, segir hret næstu daga óvenjulegt fyrir þær sakir að það gangi ekki sérlega hratt yfir.

„Við erum svo sem ekkert óvön hretum á þessum árstíma en þau eru nú yfirleitt bara skammvinn og það sem er óvenjulegt er hvað það stendur lengi og hvað það fylgir því mikil úrkoma. Úrkoman, hún kemur til með á Norður- og Norðausturlandi að falla að nóttu til sem slydda og krapasnjór á láglendi en á fjallvegum snjóar bara. Sérstaklega að næturlagi,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. Myndin er samsett.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. Myndin er samsett. mbl.is/Sigurður Bogi, Styrmir Kári

„Síðan fylgir þessu hvassviðri á Suðausturlandi og sviptivindar og það eru nú bara sviptivindar af þeim toga sem maður sér nú eiginlega bara á veturna en ekki á sumrin,“ segir Einar.

Ekki ástæða til að missa alla von

Þá verði næstu dagar fremur kaldir og erfiðir og beri að varast að ferðast um á húsbílum, með tjaldvagna og slíkt. Foráttuhvasst verði á milli Hafnar og Djúpavogs. 

Hann segir þjóðina nú ekki óvana hretum en vanalega séu þau fremur þurr og köld. Mikið sé búið að vera um fallin hitamet og öfga í veðri í kringum okkur og gætum við fengið vissa öfga yfir okkur líka.

Spurður hvort megi halda í vonina hvað varðar gott sumar segir hann sumarspána óvenju óljósa. Fátt bendi þó til þess að það verði snöggur viðsnúningur yfir í gott sumarveður þegar núverandi óveðri slotar, en það gæti enst alveg til föstudags. Það sé þó ekki ástæða til að missa alla von því veður á Íslandi geti breyst á augabragði. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert