Nýtt kerfi á að hjálpa blindum og sjónskertum

Fólki leyft að prófa NaviLens-kerfið.
Fólki leyft að prófa NaviLens-kerfið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öryrkjabandalag Íslands kynnti nýtt kerfi um helgina sem kallast NaviLens, það er kerfi sem miðar að því að minnka þörfina hjá blindu eða sjónskertu fólki fyrir að vera með leiðsögn starfsmanns.

Kerfið gefur fólki kost á að nota farsíma sína til að greina sérstaka kóða sem veita ýmsar gagnlegar upplýsingar. Kóðarnir eru hengdir upp á göngum og við dyr, sem gerir fólki kleift að ganga um og komast á áfangastað án aðstoðar.

Hlynur Þór Agnarsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Marketing, útskýrir að NaviLens-kerfið virki ekki ósvipað og QR-kóðar, en það sem aðgreinir það frá öðrum QR-kóðum er hæfileikinn til að greina kóða úr allt að 12 sinnum meiri fjarlægð, í nánast öllum birtustigum og á hreyfingu.

Hlynur Þór Agnarsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Market.
Hlynur Þór Agnarsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Market. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki eingöngu fyrir blint fólk

Að sögn Hlyns getur kerfið einnig verið nýtt sem almenn upplýsingagjöf, meðal annars með því að skanna kóða utan af pakkningum og fá innihaldslýsingar á matvælum.

„Kerfið er ekki eingöngu fyrir blint fólk eða fólk sem er sjónskert,“ segir Hlynur.

Að sögn Hlyns getur kerfið verið notað sem almennur leiðarvísir fyrir til dæmis ferðamenn og er nú þegar á 35 mismunandi tungumálum, en stefnan er að fjölga þeim.

Hlynur bendir á að hægt sé að nota NaviLens-kerfið í nánast hvað sem er.

„Ef þú ert í hjólastól veit appið það og mun alltaf beina þér að lyftu en ekki að stigum. Ef þú hakar í að þú notir táknmál er til dæmis hægt að taka upp táknmálslýsingu á safngripum,“ segir Hlynur.

 Vill innleiða kerfið alls staðar í samfélaginu 

Að sögn Hlyns er appið bæði mjög gott fyrir almenning og fyrir marga mismunandi fötlunarhópa. „Notendastillingarnar eru rosalega sérhæfðar fyrir hvern og einn notanda.“

Hlynur segir í viðtali við mbl.is að myndi hann vilja sjá NaviLens-kerfið innleitt á öllum stöðum þar sem fólk ferðast, svo sem í Kringlunni, Smáralind, Keflavíkurflugvelli, heilsugæslum, sjúkrahúsum, skólum og veitingastöðum.

„Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á að stjórnvöld hafi áhuga á því að gera betur í aðgengismálum því það þarf svo sannarlega að gera,“ segir Hlynur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert