Óskuðu eftir myndefni úr búkmyndavélum samdægurs

Lögregla beitti piparúða á mótmælunum.
Lögregla beitti piparúða á mótmælunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur kallað eftir myndefni úr búkmyndavélum lögreglu og eftirlitsmyndavélum við Skuggasund frá mótmælum fyrir utan ríkisstjórnarfund sem haldinn var á föstudag.

Lögregla beitti þar piparúða á mótmælendur sem sumir leituðu á bráðamóttöku í kjölfarið.

Skúli Þór Gunnsteinsson, formaður nefndarinnar, segir nefndina hafa tekið málið til skoðunar að eigin frumkvæði eftir að myndir og myndskeið af mótmælunum birtust í fjölmiðlum.

Sjást þar lögreglumenn m.a. beita úðavopnum og draga mótmælendur af götunni þar sem þeir lágu og hindruðu för ráðherrabíla.

Óskaði nefndin eftir gögnum samdægurs eftir að Skúli hafði ráðfært sig við aðra nefndarmenn.

Mótmælendur leituðu sumir á bráðamóttöku.
Mótmælendur leituðu sumir á bráðamóttöku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Myndefnið leit ekki vel út

Spurður hvers vegna nefndin taki málið til skoðunar að eigin frumkvæði segir Skúli málið varða réttinn til mótmæla. Þá hafi myndefnið í fjölmiðlum ekki litið vel út og því væri réttast að leita skýringa hjá lögreglu hvers vegna úðavopnum hafi verið beitt.

„Það er skynsamlegt að skoða báðar hliðar.“

Býst Skúli við að nefndin geti skilað af sér niðurstöðum síðar í sumar en tekur þó fram að ekki sé öruggt að nefndin nái að klára að skoða málið yfir höfuð.

Frumvarp um breytingar á lögreglulögum er nú til meðferðar hjá þinginu. Ef það verður samþykkt fyrir sumarfrí þingsins gæti það komið í veg fyrir að málið verði afgreitt af núverandi nefnd.

„Ef frumvarpið verður að lögum verður skipuð ný nefnd. Ég veit ekki hvort við náum að klára þetta mál áður en ný nefnd verður skipuð,“ segir Skúli og bætir við: „Við munum hraða þessu eins og við getum.“

Á hann von á að nefndin fái gögnin innan skamms enda snerti málið fundi ríkisstjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert