Óvenjulegt en veldur ekki áhyggjum

Unnur Sverrisdóttir.
Unnur Sverrisdóttir.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir í samtali við mbl.is að fjöldi þeirra sem hafi verið sagt upp í hópuppsögnum sé óvenjulegur en að Vinnumálastofnun hafi ekki miklar áhyggjur af málinu. 

„Þetta lítur illa út, en ég held að þetta sé ekki eins alvarlegt eftir að ég fór að kafa í þetta í morgun. Mikið af þessu eru hagræðingar og endurskipulagning,“ segir Unnur og telur að hluti af þeim sem hafi verið sagt upp verði ráðnir aftur.

Vinnumálastofnun bárust sex tilkynningar um hópuppsagnir í maí. Uppsagnirnar ná til 441 starfsmanna og 146 af þeim eru starfsmenn í Grindavík. 

100 manns sagt upp hjá ríkisfyrirtæki

Unnur segir að 100 manns hafi verið sagt upp hjá einni ríkisstofnun í vegna endurskipulagningar og hagræðingar en búist er við að hluti starfsmanna muni verði boðið aftur vinnuna sína aftur. Unnur gat ekki gefið upp hvaða stofnun væri verið að ræða. 

Þá segir Unnur að þrjú fiskvinnslufyrirtæki hafi einnig sagt upp hóp starfsmanna. Eitt þeirra er sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn ehf. sem hefur starfsstöð sína í Grindavík. 

Ekki var hægt að gefa upp hvaða tvö önnur fiskvinnslufyrirtæki hefðu sagt upp starfsmönnum sínum.

Í síðustu viku bárust einnig fréttir af því að Icelandair hafi sagt upp 82 manns í hagræðingarskyni.

Gerir ráð fyrir að hluti starfsmanna verði ráðinn tilbaka

Þið hjá Vinnumálastofnun gerið þá ráð fyrir að flest þeirra sem hafa verið sagt upp fái vinnuna sína til baka á næstunni?

„Já, ég á von á því.“

Þannig þið hafið ekki miklar áhyggjur af þessu? 

„Nei, við höfum verið að bíða eftir þessu hjá Grindavíkurbæ, þetta hefur legið í loftinu ansi lengi. Það er samt þessi fjöldi sem slær mann mest og er ekki í augsýn að starfsmenn Grindavíkur verði ráðnir aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert