Veður versnar á landinu seinnipartinn í dag og hefur Veðurstofa Íslands gefið út appelsínugular og gular veðurviðvaranir víða um land.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að nú sé að draga til tíðinda í veðrinu og spáð sé slæmu og langvinnu norðanveðri sem standi linnulítið yfir fram á aðfaranótt föstudags. Ef spár rætist sé um að ræða óveður sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma, bæði hvað varðar vindstyrk og einnig lágt hitastig samfara mikilli úrkomu á norðanverðu landinu.
Gul viðvörun tekur gildi á Suðurlandi klukkan 23 í kvöld en þar er spáð norðan 13-20 metrum á sekúndu. Það getur orðið varasamt ferðaveður fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Snemma í fyrramálið taka svo gular viðvaranir við á höfuðborgarsvæðinu, við Faxaflóa, á Breiðafirði og á Vestfjörðum.
Seinnipartinn í dag taka í gildi appelsínugular viðvaranir við á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, á Austfjörðum og á Suðausturlandi en spáð er hríðarveðri og miklu hvassviðri á þessum stöðum.
Í dag er spáð norðvestan og norðan 8-15 m/s með skúrum eða éljum en yfirleitt verður þurrt sunnan og vestan til. Hitinn verður 2-10 sig og verður mildast syðst. Það hvessir síðdegis og bætir í úrkomu. Spáð er norðvestan hvassviðri eða stormi á Norður- og Austurlandi í kvöld með slyddu eða snjókomu og fer veður kólnandi.