Skipulagsfulltrúi hefur nú til skoðunar beiðni um að hækka um tvær hæðir áberandi hús í miðborginni, Hafnarstræti 5. Það óvenjulega er að stuðst er við 85 ára gamla teikningu eftir arkitekt hússins, Einar Erlendsson.
Jafnframt er óskað eftir því að fá að hækka um tvær hæðir næsta hús fyrir austan, Hafnarstræti 7. Þessar fyrirspurnir eru samkvæmt tillögu arkitektastofunnar Nordic Office of Architecture. Málinu var vísað til umsagnar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.
Húsið Hafnarstræti 5 er glæsileg bygging, þrjár hæðir, kjallari og ris. Það stendur milli Tryggvagötu og Hafnarstrætis og framhliðin snýr að Naustunum. Setur húsið mikinn svip á Kvosina í miðborginni og því myndi stækkun þess hafa eftirtektarverða breytingu í för með sér á miðborgina. Húsið er í dag alls 3.810 fermetrar og fasteignamat tæplega 1,5 milljarðar króna.
Mjólkurfélag Reykjavíkur byggði húsið árið 1929 og var það kallað Mjólkurfélagshúsið.
Mjólkurfélag Reykjavíkur var stofnað 1917 og var upphaflega samvinnufélag. Árið 1930 kom félagið á fót fullkominni mjólkurvinnslustöð við Snorrabraut. Síðar var Osta- og smjörsalan þar til húsa og enn síðar Söngskólinn. Nú stendur til að hefja þar hótelstarfsemi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu 30. maí.