Inga Þóra Pálsdóttir
Í stofunni heima hjá Höllu Tómasdóttur, nýkjörnum forseta, er ljósmynd af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta.
Myndin er tekin fyrir utan heimili Vigdísar árið 1980 þegar hún ávarpaði stuðningsfólk sitt eftir að hafa verið kjörin forseti. Halla gerði hið sama í gær. Hún ávarpaði stuðningsfólk sitt fyrir utan heimili sitt í miðbæ Reykjavíkur kl. 16.
Í ávarpi sínu sagði hún það heiður lífs síns að fá að gegna embætti forseta Íslands.
Vigdís Finnbogadóttir var á sínum tíma kjörin forseti fyrst kvenna í heiminum. Halla veður önnur konan til að gegna embætti forseta Íslands.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Halla það skipta miklu máli að konur gegndu slíkum stöðum. Þá hefði Vigdís verið henni mikil fyrirmynd.
„Við vorum svo mikil fyrirmynd fyrir umheiminn árið 1980 þegar við höfðum hugrekki til að kjósa Vigdísi og hún var mér og minni kynslóð svo mikil fyrirmynd. Ég held að við séum þegar í forystu fyrir kynjajafnrétti á Íslandi og ég vonast til þess að sinna því verkefni mjög vel, bæði innan samfélagsins og utan,“ sagði Halla við mbl.is í gær.