81 árs bóndi man ekki eftir öðru eins veðri

Sauðfé hefur verið smalað í hús vegna óveðurs sem gengur …
Sauðfé hefur verið smalað í hús vegna óveðurs sem gengur yfir landið. mbl.is/Atli Vigfússon

Bóndi á Mývatnsheiði man ekki eftir jafn langvinnu óveðri í júní og því sem gengur nú yfir landið þau 80 ár sem hann hefur verið viðloðandi búskap. Hann segir ástandið erfitt fyrir sauðfjárbændur sem margir hafa þurft að koma fé sínu í skjól.

Ari Teitson, bóndi á Hrísum í Reykjadal, hefur átt eigið sauðfé í 80 ár, allt frá því að hann var tveggja vetra. Ásamt konu sinni á Ari 36 vetrarfóðraðar kindur og um 60 lömb.

Aðspurður út í veðrið á Hrísum segir Ari: „Hér er vonskuveður, við erum í 200 metra hæð og það er töluverður renningur.”

Appelsínugul viðvörun frá Vegagerðinni er í gildi á Mývatnsheiði sem og á stærstum hluta landsins.

Erfitt ástand

Ari segir að vegna óveðursins sem gengur nú yfir hafi hann ásamt öðrum bændum á svæðinu þurft að smala öllu fé í hús í gær og það sé erfitt ástand.

Ari Teitsson, bóndi á Hrísum í Reykjadal.
Ari Teitsson, bóndi á Hrísum í Reykjadal.

„Þetta eru náttúrulega lömb, þau elstu orðin meira en mánaðar gömul og beitarvön. Það er mjög vont að fá þau í hús, þau kunna ekki að éta heyið en þá ganga þau mjög nálægt mæðrum sínum,“ segir Ari og útskýrir að þetta verði til þess að ærnar, sem sömuleiðis eru orðnar vanar útibeit, geldist.

Hann segir bændur hins vegar búa vel að góðu sumri í fyrra þar sem flestir eigi tiltölulega mikið hey en að ástandið kalli á mikla viðbót í heygjöf.

Man ekki eftir jafn langvinnu óveðri í júní

Ari er með reynslumestu sauðfjárbændum landsins, að minnsta kosti ef í árum er talið, en hann segir: „Mér var gefin golsótt gimbur þegar ég var á öðru ári og hef átt golsótt fé síðan. Þannig að ég hef verið bóndi í 80 ár og trúlega er það Íslandsmet.“

Aðspurður hvort hann muni eftir öðru eins óveðri í júní svarar Ari: „Við vorum að rifja þetta upp, við bræðurnir, og við héldum að við myndum varla eftir svona vondu veðri.

Þó var það nú tilfellið um 1950 að það gerði stundum 17. júní-hret sem voru nú ekkert mikið skárri en þetta en munurinn er sá núna að ef spáin gengur eftir verður þetta langvinnara, fleiri dagar,“ segir Ari sem vonast til að geta sett féð aftur út á föstudag eða laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert