Appelsínugular og gular viðvaranir um allt land

Veðurútliðið fyrir vikuna er ekki gott.
Veðurútliðið fyrir vikuna er ekki gott. Kort/Veðurstofa Íslands

Appelsínugular og gular veðurviðvaranir verða víða á landinu í dag vegna hvassrar norðanáttar og snjókomu á mörgum fjallvegum norðan og austan lands.

Appelsínugular viðvaranir tóku gildi í gær á Norðurlandi og Austurlandi sem gilda fram eftir vikunni.

Gul veðurviðvörun tekur gildi á nokkrum svæðum á landinu fyrir hádegi vegna hvassrar norðanáttar.

Á höfuðborgarsvæðinu tekur hún gildi klukkan 9 en spáð er norðan 10-18 m/s með snörpum vindhviðum á Kjalarnesi.

Á Faxaflóa, Breiðafirði og á Vestjörðum tekur gul viðvörun gildi á milli klukkan 6 til 8 en þar er spáð hvassri norðanátt 13-20 m/s og getur orðið varasamt veður.

Vindaspá klukkan 7.
Vindaspá klukkan 7. Kort/Veðurstofa Íslands

Í dag verða norðan og norðvestan 13-23 m/s, hvassast verður austan til. Slydda eða rigning nærri sjávarmáli fyrir norðan og austan, annars verður snjókoma. Hitinn verður á bilinu 0-4 stig. Það verður úrkomulítið sunnan til og við vesturströndina með hita að 9 stigum yfir daginn.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að voldug 975 mb lægð sé stödd norðaustur af landinu. Lægðin þokast til suðurs í dag og færist nær landinu en á móti kemur að lægðin er hætt að dýpka.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert