Börnin ánægð með að fá snjóinn aftur

Árlegum hjóladegi leik- og grunnskóla Fáskrúðsfjarðar var flýtt vegna óveðurs.
Árlegum hjóladegi leik- og grunnskóla Fáskrúðsfjarðar var flýtt vegna óveðurs. Ljósmynd/Aðsend

Mikið hvassviðri er nú í flestum landshlutum en börnin á leikskólanum Kærabæ á Fáskrúðsfirði láta sér fátt um finnast um veðurofsann. 

Helga Jóna Guðmundsdóttir, deildarstjóri á leikskólanum Kærabæ á Fáskrúðsfirði, segir að það hafi snjóað áður á þessum tíma árs en hún minnist þess ekki að það hafi sömuleiðis verið jafn hvasst með slíkum kulda.

Úr 20 stigum niður í snjókomu

Skjótt skipast veður í lofti eins og sagt er, en á laugardaginn var um 20 stiga hiti á Fáskrúðsfirði en í morgun komu flest börnin með snjógalla í leikskólann. 

Að sögn Veðurstofu Íslands er appelsínugul viðvörun í gildi yfir norðanvert landið, hálendið, Suður-, Suðausturland og Austfirði. Á Austfjörðum er spáð norðvestan átt 15-25 m/s fram til morguns með snjókomu eða slyddu á fjallvegum.

Fyrsta degi vinnuskólans frestað

Haraldur L. Haraldssonar, upplýsingafulltrúi á bæjarskrifstofu Fjarðabyggðar, segir í samtali við mbl.is, að skólahald sé nú að mestu búið en fresta þurfti fyrsta degi vinnuskólans, sem átti að hefjast á morgun, fram á föstudag.

Veðrið hefur ekki haft áhrif á opnun leikskóla á Austfjörðum.

Stutt í gleðina

Helga Jóna segir jafnframt að leikskólastarf á Kærabæ fari fram með venjubundnum hætti að undanskilinni útivist, en minnstu börnin eru höfð inni á meðan versta veðrið gengur yfir.

Árlegum hjóladegi leik- og grunnskólans á Fáskrúðsfirði var flýtt um einn dag og var haldinn í gær. Þá var þegar orðið kalt og byrjað að hvessa en börnin létu það ekki á sig fá. Stutt er í gleðina hjá krílunum sem mörg hver voru spennt yfir að fá snjóinn aftur, að sögn Helgu Jónu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert