Dæmdur fyrir eitt stærsta rán Íslandssögunnar

Ránið var framið í úra- og skartgripaversluninni Michelsen sem þá …
Ránið var framið í úra- og skartgripaversluninni Michelsen sem þá var við Laugaveg 16. mbl.is/Rebekka Líf Albertsdóttir

Einn samverkamannanna í einu stærsta ráni Íslandssögunnar hefur hlotið fjögurra ára dóm fyrir að ræna skartgripa- og úraverslunina Michelsen, sem þá var á Laugavegi, tæpum 13 árum eftir að glæpurinn var framinn. 

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm yfir Pawel Artur Tyminski í síðasta mánuði fyr­ir rán og nytjastuld, en hann ásamt þremur sammverkamönnum réðst með of­beldi og hót­un­um á starfs­fólk úra- og skart­gripa­versl­un­ar­inn­ar í októ­ber árið 2011. 

Hlutu þeir dóma fyrir verknaðinn árið 2012, en mennirnir fjórir komust á brott með 49 armbandsúr af gerðunum Rolex, Tudor og Michelsen, samtals að verðmæti rúmlega 50 milljóna. 

Stálu fjórum bílum

Í dómnum segir að ákærði og samverkamenn hans hafi komið til landsins gagngert í þeim tilgangi að komast yfir úr í versluninni Michelsen. 

Ákærði ásamt tveimur mannanna kom til landsins með flugi um Keflavíkurflugvöll sunnudaginn 9. október 2011 en sá fjórði kom með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 11. október og hafði með sér bifreið sem hann keyrði á til Reykjavíkur. 

Aðfaranótt fjórtánda október tóku mennirnir tvo bíla í heimildarleysi. Annan við Eskihlíð og hinn við Öldugötu. Þann 16. október stálu þeir þriðja og fjórða bílnum við Ásabraut í Kópavogi annars vegar og hins vegar við Gnoðarvog í Reykjavík.

Frank Michelsen úrsmiður með úrin sem tekin voru úr versluninni …
Frank Michelsen úrsmiður með úrin sem tekin voru úr versluninni í ráninu. mbl.is/Júlíus

Notuðu leikfangabyssur við ránið

Að morgni dags 17. október réðust mennirnir fjórir inn í Michelsen á Laugavegi. Þá ógnuðu þeir starfsfólki verslunarinnar með skotvopnum og skipuðu þeim að leggjast á gólfið. Þá brutu þeir upp hirslur og höfðu á brott með sér fyrrgreind armbandsúr.

Skotvopnin sem mennirnir veifuðu á lofti í ráninu reyndust síðar vera leikföng en í dóminum segir að starfsfólk verslunarinnar hafi ekki getað vitað að ekki væri um raunveruleg vopn að ræða.

Sluppu mennirnir á brott í bifreið sem þeir tóku frjálsri hendi og skiptu síðan um bifreið. Földu þeir þýfið í bifreiðinni sem einn mannanna kom á með Norrænu og hugðist fara með af landi brott aftur.

Var hann handtekinn þann 26. október en ákærði og hinir tveir samverkamennirnir komust af landi brott með flugi frá Keflavíkurflugvelli þriðjudaginn 18. október.

Sýndi iðrun og samstarfsvilja

Segir í dómsuppkvaðningu að litið sé til þess að Pawel hafi verið samstarfsfús við lögreglu, játað brot sín skýlaust og sýnt iðrun.

Þá sé sömuleiðis langt um liðið síðan ákærði framdi umrædd brot. Hæfileg refsing þyki því vera fangelsi í fjögur ár en dómurinn telur ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna. Hann hafi enga aðra dóma að baki hér á landi eða sakaferil í Póllandi sem sé tekinn til skoðunar í málinu. 

Þá kemur fram að Pawel hafi sætt gæsluvarðhald í Póllandi í rúman mánuð vegna málsins í Póllandi og frá því í mars í ár hér á landi. Hvort tveggja komi til frádráttar refsingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert