Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er enn lokaður eftir nóttina sem og Kísilvegur á milli Húsavíkur og Mývatnssveitar.
Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra þar sem segir jafnframt að óljóst sé hvort vegirnir verði opnaðir í dag.
Ekkert lát er á norðanhretinu sem hófst í gær á Norðurlandi eystra og hefur Veðurstofan nú framlengt appelsínugula veðurviðvörun vegna vinds og snjókomu fram á aðfaranótt fimmtudags, segir í færslunni.
„Ljóst er að vænta má talsverðrar snjókomu aðfaranótt miðvikudags og fimmtudags víðs vegar um Norðurland áður en að hlýna fer aftur.“
Því hvetur lögreglan alla til að fylgjast vel með þeim síðum sem veita hvað bestar upplýsingar um færð og veður, sem eru Vegagerðin og Veðurstofan.