Ferðamenn festu sig í snjó á Kísilvegi

Ferðamenn sem dvöldu á tjaldsvæðinu á Húsavík í nótt vöknuðu …
Ferðamenn sem dvöldu á tjaldsvæðinu á Húsavík í nótt vöknuðu upp við hvíta fönn yfir öllu tjaldsvæðinu. mbl.is/Haþór Hreiðarsson

Björgunarsveitin á Mývatni aðstoðaði í gær ferðamenn sem höfðu fest sig í snjó á Kísilvegi. Á Austurlandi barst tilkynning vegna svala sem voru við það að fjúka og bátur losnaði frá bryggju í Norðfjarðarhöfn. 

Eru þetta nokkur af mörgum verkefnum sem björgunarsveitir á norðvesturhorninu unnu við í gær, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Jón segir ekkert útkallanna hafa verið stórvægilegt en ljóst að veðrið hafi sett strik í reikninginn hjá þó nokkrum. 

Snjóaði talsvert á Húsavík í nótt.
Snjóaði talsvert á Húsavík í nótt. Ljósmynd/Hörður Jónasson

Gul­ar og app­el­sínu­gul­ar viðvar­an­ir eru í gildi um allt land vegna ofan­komu og svipti­vinda og fór að finna nokkuð fyrir veðrinu á norðvesturhorninu í gær. Veðrinu á ekki að slota fyrr en á föstu­dag og veður­skotið er því talið óvenju lang­dregið fyr­ir þenn­an árs­tíma.

Svalir við það að fjúka af húsi

Það var um klukkan níu í gærkvöldi sem björgunarsveitinni á Mývatni barst tilkynning vegna ferðamanna á tveimur bílum sem festust í snjó á Kísilvegi. Vel tókst til við að leysa það verkefni og gátu ferðamennirnir haldið áfram leið sinni. 

Grænt grasið snæviþakið á Húsavík.
Grænt grasið snæviþakið á Húsavík. Ljósmynd/Hörður Jónasson

Þegar fór að halla undir miðnætti fór bíll út af veginum við Vaðlaheiðargöng. Jón Þór segir þrjár rúður í bílnum hafa brotnað og verkefnið hafi því verið leyst með þeim hætti að aka bílnum inn í göngin og geyma hann þar. 

Skip bundið niður 

Þá losnaði skip frá bryggju í Norðfjarðarhöfn sem björgunarsveitin þar í bæ aðstoðaði við að binda aftur niður. Skipið losnaði að framan og segir Jón Þór það hafa verið fært að annarri bryggju þar sem það var bundið.

Þá barst tilkynning frá Reyðarfirði vegna svala sem voru við það að fjúka af húsi að sögn Jóns Þórs og útskýrir að þær hafi verið bundnar aftur niður. 

Treysti sér ekki til að halda áfram 

Var það síðan klukkan sex í morgun sem björgunarsveitin á Mývatni var boðuð út til að sækja ferðamann sem var sunnan við Sellandafjall. 

Jón Þór kveðst ekki hafa upplýsingar um á hvaða ferðalagi viðkomandi var en segir hann ekki hafa treyst sér til að halda áfram göngu sinni vegna snjóa. Þegar blaðamaður ræddi við Jón Þór var maðurinn kominn inn í bíl hjá björgunarsveitinni og á leið til Mývatns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka