Fjármagna stoðtæki fyrir þá sem hafa misst útlimi í Úkraínu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Sveinn Sölvason forstjóri Össurar …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Sveinn Sölvason forstjóri Össurar handsala samninginn. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið í samstarfi við fyrirtækið Össur að veita framlag að upphæð 10 milljónum króna til fjármögnunar á stoðtækjalausnum fyrir tuttugu einstaklinga sem eru í umönnun hjá endurhæfingarspítalanum í Dnipro í austurhluta Úkraínu. 

Stoðtækin eru ætluð þeim sem hafa misst útlimi bæði fyrir neðan og ofan hné.

Fyrr á árinu barst ósk frá úkraínskum stjórnvöldum um aðstoð íslenskra stjórnvalda og Össurar við að fjármagna kaup á stoðtækjum til endurhæfingarspítalans í Dnipro.

„Brýn þörf er á fleiri stoðtækjum vegna þeirra umfangsmiklu meiðsla, bæði á úkraínskum hermönnum og óbreyttum borgurum, sem innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur leitt af sér,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. 

Tilraunaverkefni

Ráðgert er að sérfræðingar sem hlotið hafa þjálfun hjá Össuri og eru starfandi á endurhæfingarspítalanum í Dnipro muni veita klíníska þjónustu.

Mun Össur jafnframt veita ráðgjöf og aðstoð á meðan á verkefninu stendur. Um tilraunaverkefni er að ræða sem fer fram nærri vígstöðvunum og ef vel tekst til má áætla að möguleikar séu á umfangsmeira samstarfi síðar meir.

Össur hefur áður hlotið styrk frá ráðuneytinu til verkefna í Úkraínu en sumarið 2022 hlaut fyrirtækið 200 þúsund evra styrk til þess að vinna með úkraínskum sérfræðingum við að útvega stoðtæki til þeirra fjölmörgu sem hafa misst útlimi í stríðsátökunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert