Hvalfjarðargöngum lokað vegna bilaðrar rútu

Rúta bilaði í Hvalfjarðargöngum.
Rúta bilaði í Hvalfjarðargöngum. mbl.is/Árni Sæberg

Hvalfjarðargöngum hefur verið lokað vegna bilaðrar rútu. Þetta staðfestir þjónustufulltrúi Vegagerðarinnar í samtali við mbl.is. 

Ekki liggur fyrir hvenær göngin verða opnuð á ný að svo stöddu en starfsmaðurinn kveðst gera ráð fyrir því að göngin opni á næsta hálftímanum eða svo.

Dráttarbíll sé að mæta á svæðið en aðgerðin geti reynst örlítið flóknari þar sem rútan sé á erfiðum stað með lítinn vagn áfastan að aftan.

Lokað í nótt og aðfaranótt fimmtudags

Þegar var ætlunin að loka göngunum vegna vinnu frá miðnætti í kvöld, aðfaranótt miðvikudags 5. júní, til kl. 6.30 að morgni.

Einnig verða göngin lokuð á sama tíma aðfaranótt fimmtudags 6. júní. Hjáleið er um Hvalfjarðarveg (47).

Veðurstofan hefur gefið út appelsínugular eða gular veðurviðvaranir fyrir allt landið í dag. Nokkrir vegir eru lokaðir, m.a. hringvegurinn á Suðausturlandi og Norðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert