Kakkalakkar uppgötvuðust á göngum nýrnadeildar Landspítalans í Fossvogi nýlega.
Í umfjöllun ríkisútvarpsins segir að ferðamaður frá Afríku, sem lagður var inn á nýrnadeild Landspítalans, hafi borið kakkalakkana með sér í farangri sínum.
Í svari við fyrirspurn mbl.is segir fulltrúi spítalans að um hafi verið að ræða farþega í flugvél sem bráðveiktist um borð og var fluttur á nýrnadeild.
Þar hafi kakkalakkarnir uppgötvast er ferðataska hans var opnuð, en ekki sé talið að viðkomandi hafi vísvitandi borið þá með sér.
Kakkalakkarnir séu aftur á móti af þýskum uppruna.
Spítalinn telji sig nú hafa náð tökum á útbreiðslu meindýranna en vakti stöðuna grannt til að ganga úr skugga um að engin egg hafi orðið eftir á göngum deildarinnar.