Björn Skúlason, eiginmaður Höllu Tómasdóttur, verður þann 1. ágúst fyrsti eiginmaður forseta í 80 ára sögu lýðveldisins.
Við þetta hafa sumir byrjað að klóra sér í hausnum yfir því hvað skuli kalla hann, en hingað til hefur „forsetafrú“ verið notað til að lýsa eiginkonum forseta.
„Við þurfum að venjast nýjum orðum og flest ný orð, þau virka kjánalega á mann í byrjun en ef þau komast í notkun þá er maður fljótur að venjast þeim og þau verða eðlileg,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, í samtali við mbl.is.
„Þetta er í raun og veru bara spurning um það hvort að farið verði í að nota eitthvað ákveðið orð og hvort að það nær til fólks,“ bætir hann við.
Eiríkur Rögnvaldsson nefnir sem dæmi að hægt sé að nota „eiginmaður forseta“ til að lýsa Birni.
„Við þurfum ekki alltaf endilega að hafa eitt nafnorð, það er alveg hægt að komast af án þess,“ segir Eiríkur.
Hann nefnir þó nokkra aðra möguleika sem hægt er velja á milli í könnuninni hér að ofan, ásamt tillögum frá ritstjórn.
Hann segir ómögulegt að segja til um það hvort að eitt orð nái yfirhöndinni eða hvenær það muni þá gerast.
„Við erum oft – ég er ekki endilega að segja að það eigi við í þessu tilfelli – föst í því að það þurfi endilega að hafa eitthvert eitt orð um alla hluti. Oft er í lagi að hafa orðasamband eins og „eiginmaður forseta“ eða eitthvað svoleiðis.“
Hann segir að umræðan sem hafi skapast í kringum þetta tiltekna mál sýni fram á það að fólki sé annt um tunguna og hafi áhuga á henni.