Óveðrið hefur víðtæk áhrif

Erfitt er að færa lömb sem þegar eru vön útibeit …
Erfitt er að færa lömb sem þegar eru vön útibeit aftur í hús. mbl.is/Ásdís

„Þetta hefur mjög víðtæk áhrif á sauðfjárbændur,“ segir formaður sauðfjárbænda hjá Bændasamtökunum um óveðrið sem gengur nú yfir landið. Bændur eru ekki vanir jafn langvinnu óveðri á þessum árstíma.

Sauðfjárbændur hafa þurft að færa fé sem komið var út á beit í skjól en Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir stóran hluta landsins. Gert er ráð fyrir að óveðrið gangi ekki yfir fyrr en í lok vikunnar.

Erfitt að taka fé aftur í hús

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir ástandið hafa víðtæk áhrif á sauðfjárbændur.

„Þetta er mjög slæmt fyrir sauðfé, bæði er mjög erfitt að taka lambfé á hús og líkur á júgurbólgu hjá ám aukast. Þær geta gelst og lömbin fá þá minni mjólk,“ segir Eyjólfur og bætir við að þetta geti komið til með að hafa áhrif á fallþunga þegar kemur að slátrun í haust.

„Vöxturinn í lömbunum tekur afturkipp og stöðvast.”

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður sauðfjárbænda hjá bændasamtökunum.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður sauðfjárbænda hjá bændasamtökunum. mbl.is/Sigurður Bogi

Óvenjulegt fyrir árstíma

Eyjólfur segir jafn langvinnt óveður á þessum árstíma óvenjulegt: „Menn eru vanir að fást við hret sem stendur í hálfan sólarhring eða eitthvað slíkt. Þau hafa alltaf komið en þegar það er heil vika undir er þetta orðið svolítið mikið og þröngt í húsum. Hætta er á að lömb villist undan.“

Hann tekur þó fram að veðrið hafi ekki aðeins áhrif á sauðfjárbændur heldur allan bústofn: „Ég veit til þess að það er víða búið að taka folaldsmerar inn og það er verið að taka inn holdagripi sem eru komnir nálægt burði.“

„Mun í minningunni flokkast sem leiðinlegt vor“

Eyjólfur segir einhverja bændur áhyggjufulla en segir þá taka þetta á kassann: „Þetta er verkefni sem menn eru bara að fást við þó þeir hafi kannski verið að vonast eftir öðru verkefni í byrjun júní en að fara að hýsa fé.“

Tímasetning óveðursins er slæm að sögn Eyjólfs en það kemur á eftir erfiðu vori. 

„Víða hefur vorið verið erfitt því það kom ofboðslegt magn af snjó í byrjun apríl, það er kal norðanlands og klaki hefur verið lengi í jörðu. Það er allt miklu seinna og þetta mun í minningunni flokkast sem leiðinlegt vor.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert