Rafmagn kemst á Grindavík síðar í vikunni

Loftlína frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist verulega.
Loftlína frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist verulega. Ljósmynd/HS Veitur

Enn er rafmagnslaust í Grindavík eftir að loftlína frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist verulega þegar rafmagnsstaurar eyðilögðust í hraunrennsli frá eldgosinu í síðustu viku. 

„Við erum að gera ráð fyrir því að það verði komið rafmagn á Grindavík síðar í vikunni,“ segir Sigrún Inga Ævarsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá HS Veitum, í samtali við mbl.is.

Hún segir að varaaflstöðvar hafi verið sendar af stað. Ein hafi komið í gærkvöld sem sé biluð en viðgerð standi yfir á henni og von sé á annarri til Grindavíkur í dag.

„Við gerum ráð fyrir að eitthvað rafmagn verði komið á bæinn með varaaflstöðinni síðar í dag en varaaflstöðvarnar anna ekki heildarraforkuþörfinni. Þetta er neyðaraðgerð til að koma rafmagni á hjá atvinnustarfseminni í bænum,“ segir Sigrún Inga.

Leggja varaleið frá Svartsengi til Grindavíkur

Til að koma rafmagni aftur á Grindavík er ætlunin að leggja varaleið frá Svartsengi til Grindavíkur. Lausnin felst í að nýta fyrirliggjandi strengi HS Orku og HS Veitna á þessari leið og að auki leggja nýjan streng um 4,3 kílómetra niður svokallaðan niðurdælingarveg.

Enn fremur þarf að leggja um 900 metra af jarðstreng fram hjá nýja hrauninu sem fór yfir Nesveg, í stað þess strengs sem varð þar undir hrauni.

„Þetta verk hófst í gær og gengur ágætlega. Það er unnið á sólarhringsvöktum og við erum að gera ráð fyrir því að það taki sex sólarhringa að koma rafmagni á allan bæinn með þeirri leið,“ segir Sigrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert