Skoða hvort eitthvað fari úr hrauntjörninni

Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina.
Eldgosið við Sundhnúkagígaröðina. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Virknin í eldgosinu í Sundhnúkagígum hefur verið stöðug í nótt. Hrauntjörnin austanmegin við Sýlingafell heldur áfram að hlaðast upp, að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Við erum að fylgjast með því hvort það fari eitthvað úr henni og áfram meðfram Sýlingafelli en það hefur verið mjög hæg hreyfing á því,” segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Byggir upp háa barma

Gígarnir eru þrír talsins. „Það skvettist upp úr þessum stærsta gíg í nótt. Hann hefur verið að byggja upp svolítið háa barma þannig að það sést minna ofan í hann. Það er alla vega einhver kraftur í þessu,” bætir Jóhanna Malen við.

Engin skjálftavirkni hefur verið á svæðinu, segir hún jafnframt aðspurð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert