„Svona viljum við sjá mótmæli“

Lögreglumenn fyrir utan húsnæðið í Skuggasundi í morgun þar sem …
Lögreglumenn fyrir utan húsnæðið í Skuggasundi í morgun þar sem ríkisstjórnarfundurinn fór fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti upp girðingar í morgun vegna mögulegra mótmæla í tengslum við ríkisstjórnarfund í Skuggasundi. Nokkrir lögreglumenn voru að störfum á svæðinu.

Að sögn Kristjáns Helga Þráinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, voru fáir mættir til að mótmæla í þetta sinn og fór allt saman vel fram í þann stutta tíma sem mótmælin stóðu yfir

Lögreglan fjarlægir girðingarnar.
Lögreglan fjarlægir girðingarnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt til fyrirmyndar

„Þetta var allt til fyrirmyndar og mótmælin gengu vel. Svona viljum við sjá mótmæli,” segir Kristján Helgi.

Á sama stað í síðustu viku tókust lögreglan og mótmælendur á og beitti lögreglan piparúða eftir að mótmælendurnir reyndu að koma í veg fyrir að ráðherrabílar kæmust burt eftir fundinn.

Blár og marinn á fæti

Einn lögreglumaður þurfti að leita á slysadeild í síðustu viku eftir að ráðherrabíll ók yfir fótinn á honum á meðan á mótmælunum stóð.

Að sögn Kristjáns Helga er lögreglumaðurinn blár og marinn og tognaður á fæti en svo virðist sem öryggisskórnir sem hann var í hafi komið honum til bjargar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert