Þriðji aukastafur skar úr um dúx

Frá útskrift skólans á föstudag.
Frá útskrift skólans á föstudag. Ljósmynd/Menntaskólinn í Reykjavík

Afar mjótt var á munum milli dúx og semídúx Menntaskólans í Reykjavík þetta árið. Reikna þurfti meðaltal upp á þriðja aukastaf. 

Álfrún Lind Helgadóttir er dúx Menntaskólans í Reykjavík í ár og útskrifast með einkunnina 9,765 af náttúrufræðideild I. Inga Margrét Bragadóttir er semídúx skólans og útskrifast með einkunnina 9,761 af eðlisfræðideild II. 

Menntaskólinn í Reykjavík útskrifaði 214 stúdenta sl. föstudag við hátíðlega athöfn í Háskólabíó. Alls hlutu 15 nemendur viðurkenningu fyrir ágætiseinkunn á stúdentsprófi. 

Vonast eftir nýju skólahúsnæði

Rektor skólans, Sólveig G. Hannesdóttir, vakti athygli á þeim húsnæðisvanda sem nýstúdentarnir hefðu mátt þola á sinni skólagöngu í MR. Neyðst hafi til að loka Casa Christi á fyrsta ári þeirra, húsi á menntaskólareitnum með 10 kennslustofum. 

Nýnemum það árið var kennt í öllum krókum og kimum, m.a. á lessal Íþöku, í Hátíðarsal, íþróttahúsi, fundarsal kennara og meira að segja á kaffistofu kennara. 

Ári seinna var tekið í notkun leiguhúsnæði í Austurstræti, sem fylgdu ýmsir byrjunarörðugleikar. 

Sólveig segir nýstúdenta hafa sýnt þrautseigju, dugnað og úthald á þessum árum.

„Til að geta búið komandi MR-ingum góða aðstöðu til náms og samveru verðum við að vona að það standi til að byrja á vinnu við hönnun á nýju skólahúsnæði. Nemendur MR eiga skilið þá lágmarksaðstöðu sem aðrir nemendur í framhaldsskólum hafa haft árum saman: t.d. samkomustað, mötuneyti og aðgengi fyrir alla,“ sagði rektor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert