Tugir bæst við málsókn gegn bönkunum

Neytendasamtökin að höfða svokallað fordæmisgefandi mál gegn bönkunum.
Neytendasamtökin að höfða svokallað fordæmisgefandi mál gegn bönkunum. Samsett mynd

Fjöldi fólks hefur sett sig í samband við Neytendasamtökin til þess að gæta að hagsmunum sínum gagnvart fjármálafyrirtækjum í kjölfar álits EFTA-dómstólsins um að skilmálar varðandi vaxtabreytingar á lánum séu óskýrir og skorti gagnsæi.

„Það hefur verið stöðugur straumur, einhverjir tugir, sem hafa bæst við málsóknina. Það eru einhverjir 2500 manns sem voru komnir inn í þetta og einhverjir tugir hafa bæst við síðan álitið kom fyrir rúmri viku,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. 

Mikilvægt að fólk slíti fyrningu 

Hann segir eilítið flækjustig á málunum en Neytendasamtökin reka sex mál gegn bönkunum. Flækjustigið snýr að því að hagsmunir fólks geta verið ólíkir eftir því hvernig lán fólk er með.

„Lögin um hópmálsókn á Íslandi eru mjög góð. Nema að því leyti að dómaframkvæmd er þannig að ef kröfur eru ekki nákvæmlega eins, þá er málum vísað frá. Þannig að það þarf að skerpa á lögum um hópmálsóknir,“ segir Breki.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakannna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakannna. mbl.is/Sigurður Bogi

Af þeim sökum eru Neytendasamtökin að höfða svokallað fordæmisgefandi mál.

„Það er mikilvægt að það komi fram að fólk þarf að slíta fyrningu því lög um fjárskuldbindingar segja að skuldbindingar fyrnist á fjórum árum, nema fyrningu sé slitið,“ segir Breki.

Hann segir hægt að gera þetta á tvenns konar hátt. Það sé að skjóta málum til úrskurðarnefndar um fjármálafyrirtæki eða að stefna bönkunum.

„Þriðja leiðin sem við erum að reyna að fara með bönkunum er sú að þeir viðurkenni að fyrningu á þessum málum sé slitið. En það sem þú þarft að gera sem neytandi að reikna út kröfu þína. Það er kannski flóknasti hlutinn í þessu,“ segir Breki.

Lífeyrissjóðir líka undir 

Hvað með aðra fjármálastofnanir. Eins og lífeyrissjóði?

„Já við erum á því að langflestir lífeyrissjóðir séu þarna undir,“ segir Breki.

„Við erum í startholunum að hafa sambandi við lífeyrissjóðina og kalla eftir gögnum. Eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins teljum við ljóst að lífeyrissjóðir séu einnig undir,“ segir Breki.

Breki segir undirliggjandi hagsmuni, þ.e.a.s. húsnæðislán fjármálafyrirtækja séu metin á 27.000 milljarða króna og að um 90% þeirra séu með breytilegum ákvæðum. Fjöldi lána sem eru þarna undir er í kringum 70 þúsund.

Telja hagsmuni mun hærri en bankarnir 

Bankarnir sjálfir hafa metið mögulegt tjón af málinu upp á um 30 milljarða króna. Breki segir samtökin hins vegar telja að tjónið sé allt að þrefalt meira, eða nær 90 milljörðum. Það er eingöngu það sem snýr að bönkunum að sögn hans.

Í þeim sex málum sem rekin eru gegn bönkunum er gerð krafa á allt frá tugþúsunda króna endurgreiðslu upp í endurgreiðslu upp á 2,5 milljónir króna.

„Það er því mjög misjafnt, eftir því hvar og hvenær fólk tók lánin upp á um hvaða upphæðir er að tefla,“ segir Breki.

Hann bendir á að mat samtakanna sé að álit EFTA-dómstólsins eigi við um öll lán með breytileika, ekki eingöngu húsnæðislán, heldur séu bílalán einnig undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert