Umsóknum fjölgaði í kjölfar eldgossins

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umsóknum til fasteignafélagsins Þórkötlu um kaup á fasteignum í Grindavík fjölgaði í kjölfar þess að eldgos í Sundhnúkagígum hófst á miðvikudaginn í síðustu viku. Alls bættust um 30 umsóknir við þær 800 sem þegar lágu fyrir.

Þetta segir Örn Viðar Skúlason framkvæmdastjóri Þórkötlu í samtali við Morgunblaðið.

„Það kom smá fjölgun. Það eru komnar um 830 umsóknir og ætli þær hafi ekki verið um 30 sem komu inn núna eftir að gosið hófst. Það eru auðvitað mjög margir búnir að sækja um þannig að það eru ekkert mjög margir eftir sem hafa kost á að nýta sér þetta,“ segir Örn Viðar.

Þórkatla ákvað í gær í samráði við almannavarnir og lögreglustjórann á Suðurnesjum að halda áfram móttöku fasteigna í Grindavík. Móttöku fasteignanna hafði verið frestað vegna eldgossins.

„Það voru um 70 búnir að bóka sig í þessari viku í [gær]morgun og við eigum von á að þetta verði eitthvað á annað hundrað eignir sem við tökum við í þessari viku. Höldum svo bara áfram í næstu viku í sama mæli,“ segir hann.

Eldgosið í Sundhnúkagígum.
Eldgosið í Sundhnúkagígum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir gærdaginn hafði Þórkatla tekið á móti 45 eignum en Örn Viðar var ekki með tölu á því hvað þær voru margar í gær. Búið er að gera 660 þinglýsta kaupsamninga og því um 170 samningar sem á eftir að gera. Einhver gagnrýni hefur komið fram um að ferlið hafi tekið of langan tíma en Örn Viðar segir slíka gagnrýni ekki heyrast lengur. Búið sé að gera 660 þinglýsta kaupsamninga á örfáum vikum og í flestum tilvikum þar sem ekki er búið að gera samning sé Þórkatla í virkum samskiptum við fólk. Almennt taki innan við fjórar vikur frá því að umsókn er lögð inn þar til skrifað er undir kaupsamning, ef engar flækjur verða.

„Við erum komin með þetta mál á mjög góðan stað í dag. Í upphafi var farið af stað með tvær til fjórar vikur, sem var auðvitað algjörlega óraunhæft í byrjun, en þeir sem sækja um í dag fá afgreitt á svona tveimur til fjórum vikum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert