Útlendingamál afgreidd úr nefnd

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra hefur verið afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Segir hún málefni fullnustu refsinga eða samfélagsþjónustu einnig hafa verið afgreidd. Menntasjóðurinn situr einn eftir. 

„Við afgreiddum tvö mál út úr nefndinni á fundi sem var að ljúka rétt í þessu og annað þeirra var útlendingafrumvarpið, sem hafði auðvitað verið vísað inn í nefndina milli annarrar og þriðju umræðu og við afgreiddum það út með nefndaráliti þar sem að brugðist er við athugasemdum frá umboðsmanni barna en það eru engar breytingar á frumvarpinu eins og það leit út eftir aðra umræðu,“ segir Bryndís

Sigla sömu leið 

Nefndaráliti verður dreift í dag en það byggist á minnisblaði frá dómsmálaráðuneytinu sem fór yfir álitaefni sem umboðsmaður barna benti á.

„Þau auðvitað snúa að mörgu leyti að því að við erum ekkert hér að sigla neitt aðra leið heldur en þekkist á hinum Norðurlöndunum. Þar sem að almennt eru reglur, annaðhvort í Danmörku þar sem er sem sagt ákveðinn árafjöldi plús inngildingarkröfur en önnur lönd eru með ýmsar kröfur sem allar eru þess valdandi að það sé svona ákveðinn biðtími frá því að þú færð svokallaða viðbótarvernd þar til að þú getur óskað eftir fjölskyldusamningum. Við erum bara í þessu máli að sigla svona eins og stefnan hefur verið, að reyna að fara í átt að því sem þekkist og tíðkast á hinum Norðurlöndunum,“ segir Bryndís.

Menntasjóðurinn flóknari en fyrst virtist

Aðspurð um mál Menntasjóðsins innan nefndarinnar segir Bryndís fulltrúa Menntasjóðsins hafa setið fund dagsins til þess að svara spurningum og fulltrúar ráðuneytisins muni koma á næsta fund til þess að gera slíkt hið sama.

„Það er svona ljóst að það frumvarp, sem bar nú frekar lítið yfir sér í upphafi, er kannski svona aðeins flóknara þegar farið er að kafa ofan í það en það snýst um að afnema ábyrgðarmennina á námslánum hjá ótraustum lánþegum. Eins og ég segi, þá erum við bara með það mál í vinnslu og erum svona að afla okkur frekari gagna og setja okkur betur inn í það,“ segir Bryndís en málið sé flóknara en það hafi virst í fyrstu.

Fundur nefndarinnar átti í fyrstu að fara fram í gær, en var frestað. Bryndís segir aðstæður hafa komið upp sem hafi valdið því að hún hafi neyðst til þess að fresta fundinum.

„Þessi þrjú mál sem áttu að vera á dagskrá í gær voru öll á dagskrá fundarins í dag, við afgreiðum út tvö af þeim málum, það eru útlendingamál og varðandi fullnustu refsinga eða samfélagsþjónustu. Þau fóru bæði út úr nefndinni núna áðan en Menntasjóðurinn er enn í vinnslu inn í nefndinni,“ segir Bryndís.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert