Í gærkvöldi var boðað til fundar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í dag, en á honum er útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra síðast á dagskrá. Óljóst er hvort afgreiða á málið úr nefndinni þá.
Fundi nefndarinnar var frestað með skömmum fyrirvara í gær, að sagt var vegna „óvæntrar uppákomu“ en síðan var sagt að „óviðráðanlegar ástæður“ hefðu valdið. Það olli nokkrum titringi í stjórnarliðinu og hvíslað um að Vinstri-grænir vildu enn tefja málið eða beinlínis efna til ágreinings.
Þá þegar hafði spurst út um afhroð flokksins í skoðanakönnun Gallup, sem birt var í gærkvöldi, en miðað við hana dytti flokkurinn af þingi.
Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar sagði hins vegar í samtali við Morgunblaðið að fundinum í gær hefði verið frestað vegna ágreinings um Menntasjóð.
„Það er ekki uppi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um [frumvarp til útlendingalaga], málið er ekki í ágreiningi innan nefndarinnar eða milli stjórnarflokkanna.“
Hún gerir ráð fyrir að frumvarpið rati úr nefndinni í vikunni.