Birta Hannesdóttir
Fleiri veitingahús urðu gjaldþrota á síðasta ári en á árunum sem kennd eru við heimsfaraldur kórónuveiru og fjöldi veitingahúsa hefur orðið gjaldþrota á þessu ári.
„Við höfum þungar áhyggjur af gjaldþrotum í greininni og róðurinn er orðinn mjög þungur,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT), í samtali við mbl.is.
Hann segir að veitingahús verði gjaldþrota nánast í hverri viku.
Aðalgeir telur ástæðuna að mestu vera hátt vaxtastig í landinu, fækkun ferðamanna og að neysla viðskiptavina hafi breyst.
Þá sé vöruverð orðið hátt, leiga á húsnæði hafi hækkað og laun starfsmanna hafi hækkað. Aðalgeir segir laun vera um helmingur af veltu allra veitingahúsa.
Veitingamenn hafa ítrekað lýst áhyggjum sínum af rekstrarumhverfi veitingastaða.
Aðalgeir tengir stöðu greinarinnar meðal annars til kjarasamninga sem greinin hefur fengið.
„Það er gríðarlega erfitt að vinna í þessu starfsumhverfi sem Samtök atvinnulífsins (SA) og stéttarfélögin hafa skapað okkur. Við fáum enga aðkomu að gerð kjarasamninga sem er mjög sorglegt,“ segir Aðalgeir.
Þá segir Aðalgeir að SVEIT hafi ítrekað reynt að komast að samningaborðinu til að rödd veitingahúsaeigenda fái hljómgrunn, en segir að ekki sé vilji fyrir því hjá SA.