„Verðum að treysta lögreglunni til að sinna sínu“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir málið óþægilegt valda óöryggi.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir málið óþægilegt valda óöryggi. Samsett mynd

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, deilir áhyggjum foreldra og fólks í Hafnarfirði í tengslum við atvik í bænum þar sem veist hefur verið að börnum. 

Hún segir fyrst og fremst um lögreglumál að ræða en áréttir að bæjaryfirvöld séu í góðu sambandi við lögreglu og skólayfirvöld á þeim stöðum sem umrædd atvik hafi átt sér stað. 

„Ég heyri það að lögreglan er að gera allt hvað í hennar valdi stendur til að uppræta þetta mál. Rannsókn er í fullum gangi og þau eru að beita öllum þeim leiðum sem lögreglan hefur.“ 

„Vonandi ná þau að leysa þetta sem fyrst“

Eins og mbl.is hefur greint frá stendur leit enn yfir af manni eða mönn­um sem hafa ógnað eða jafn­vel ráðist á börn í Hafnar­f­irði að und­an­förnu. For­eldr­ar eru ugg­andi og for­eldra­fé­lög í skól­um bæj­ar­ins hafa tekið upp á for­eldrarölti.

Rósa segir málið vissulega vekja upp ugg en segir nauðsynlegt að treysta lögreglunni fyrir því að sinna sínu starfi. 

„Við verðum að treysta lögreglunni til að sinna sínu starfi því þetta er þess eðlis, en þetta er óþægilegt og vonandi ná þau að leysa þetta sem fyrst,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert