Verulega virðist hafa dregið úr krafti eldgossins

Á miðviku­dag hófst fimmta eld­gosið síðan gos­hrina hófst í Sund­hnúkagígaröðinni …
Á miðviku­dag hófst fimmta eld­gosið síðan gos­hrina hófst í Sund­hnúkagígaröðinni 18. des­em­ber á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verulega virðist hafa dregið úr krafti eldgossins við Sundhnúkagígaröðina klukkan tvö í nótt. 

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands vekur athygli á þessu á Facebook.

Í færslu hópsins segir að þetta eigi sérlega við um nyrðri gíginn sem gaus kröftuglega í gær. Enn sjáist stakar hraunslettur úr þeim gíg, en mun minni en í gær. Því virðist bara tímaspursmál hvenær sá gígur hættir að gjósa.

„Samhliða þessu féll gosórói nokkuð skarpt en hélst svo stöðugur fram eftir nóttu. Syðri og stærri gígurinn lifir enn góðu lífi þó hann gjósi ekki jafn kröftuglega og í gær. Sá gígur er við hlið þess gígs sem gaus lengst í síðasta gosi,“ segir ennfremur í færslunni.

Gosið hófst á miðvikudaginn í síðustu viku og er það fimmta síðan goshrina hófst í Sundhnúkagígaröðinni í desember á síðasta ári. Þetta er jafnframt áttunda gosið á Reykjanesskaganum á þremur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert