Appelsínugular viðvaranir áfram í gildi

Spáð er norðan hvassviðri eða stormi um mest allt land
Spáð er norðan hvassviðri eða stormi um mest allt land Kort/Veðurstofa Íslands

Appelsínugular viðvaranir verða áfram í gildi víða um land þangað til í nótt eða í fyrramálið.

Spáð er norðan hvassviðri eða stormi um mest allt land með rigningu, slyddu eða snjókomu á norðan- og austanverðu landinu.

Ferðalög geta verið varasöm, sérstaklega á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi. Snjór getur sest á vegi, einkum fjallvegi, með erfiðum akstursskilyrðum eða jafnvel ófærð. Huga þarf að því að koma búfénaði í skjól. Mikill kuldi verður og vosbúð fyrir útivistarfólk, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Á Suðurlandi verður gul viðvörun áfram í gildi þangað til snemma í fyrramálið en á Vestfjörðum verður hún í gildi frá hádegi í dag þangað til á miðnætti annað kvöld.

Veðurspáin í dag er annars þannig að spáð er norðan og norðvestan 13 til 23 metrum á sekúndu, hvassast fyrir austan. Slydda verður eða rigning nærri sjávarmáli og snjókoma inn til landsins, en úrkomulítið sunnantil og við vesturströndina. Dregur úr vindi vestanlands í kvöld.

Norðvestan 13-20 m/s verða á morgun, hvassast suðaustantil en á Vestfjörðum undir kvöld. Rigning verður eða snjókoma á norðanverðu landinu. Þurrt að kalla sunnan heiða en sums staðar dálítil rigning þar annað kvöld.

Hiti verður á bilinu 0 til 4 stig á Norður- og Austurlandi, en að 11 stigum sunnan- og vestantil.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert