Engar málefnalegar ástæður hjá Sjúkratrygginum Íslands

Intuens býr yfir einu fullkomnasta tæki landsins samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins.
Intuens býr yfir einu fullkomnasta tæki landsins samkvæmt áliti Samkeppniseftirlitsins. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samkeppniseftirlitið hefur skilað áliti og beinir tilmælum til heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingum Íslands um að gripið verði til aðgerða til að stuðla að bættri samkeppni á markaði fyrir myndgreiningar utan sjúkrahúsa.

Samkeppniseftirlitið telur stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á málefnalegar ástæður sem réttlæta það að ríkið gangi ekki til samninga við Intuens Segulómun ehf. um greiðsluþátttöku vegna myndgreiningar á sama tíma og eldri samningar fyrirtækja á markaðnum hafa verið framlengdir.

Verði að njóta jafnræðis

Fyrirtækið Intuens Segulómun ehf. kvartaði til Samkeppniseftirlitsins þar sem því var synjað um samning um greiðsluþátttöku sem hindrar innkomu fyrirtækisins á markað fyrir myndgreiningu.

Tilmæli Samkeppniseftirlitsins fela í sér að Intuens skuli njóta jafnræðis gagnvart fyrirtækjunum sem þegar eru á markaðnum hvað greiðsluþátttöku varðar. Á markaðnum sem málið varðar starfi aðeins þrjú fyrirtæki og tvö af þeim hafa háa markaðshlutdeild.

Markaðurinn er skilgreindur sem myndgreiningarþjónusta utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu.

Búa yfir einu fullkomnasta tæki landsins

Í desember á síðasta ári leitaði Intuens til Samkeppniseftirlitsins vegna synjunarinnar. Taldi fyrirtækið hana fela í sér samkeppnishindrun og að grípa þyrfti til aðgerða til að tryggja að það geti haft starfsemi og veitt fyrirtækjum samkeppnislegt aðhald.

Fram kemur í málinu að Intuens búi yfir einu fullkomnasta tæki landsins á sviði segulómunar. Yrði ekkert gert í málinu þyrfti annað hvort að selja tækið úr landi, sem yrði neikvætt fyrir þjóðarbúið, eða selja til fyrirtækjanna sem eru á markaðnum sem myndi hafa skaðleg áhrif á samkeppni.

Sjúkratryggingar Íslands segja í málinu að stofnuninni sé einungis heimilt að ganga til samninga við fyrirtæki sé það hagkvæmt. Þá sé almennt ekki talið að þörf sé á samningsgerð ef framboð á heilbrigðisþjónustu sem niðurgreidd sé af stofnuninni fullnægi eftirspurn eftir þjónustunni.

Tilvísunum fjölgað um 80% síðustu ár

Samkeppniseftirlitið segir það frumforsendu fyrir aðila sem vilja hefja starfsemi á markaðnum sem um ræðir að gera samning um greiðsluþátttöku við Sjúkratryggingar Íslands. Innkoma Intuens sé til þess fallin að draga úr samþjöppun á markaðnum og hafa jákvæð áhrif á samkeppni.

Sjúkratryggingar Íslands telja að ekki sé þörf á að fjölga verkum á markaðnum en Samkeppniseftirlitið segist ekki geta fallist á það sjónarmið. Aukning sé greinileg á síðustu árum hvað tilvísanir til myndgreiningar varðar en þeim hefur fjölgað um 80% síðustu sjö ár. Aukin eftirspurn ætti að skapa rými fyrir nýtt fyrirtæki á markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert