Enginn mótmælandi hefur verið sektaður eða á yfir höfði sér kæru vegna mótmælanna sem haldin voru fyrir utan fund ríkisstjórnarinnar við Skuggasund á föstudaginn.
Þetta staðfestir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Kveðst hann heldur ekki vita til þess að lögreglumaður hafi verið kærður af mótmælanda í kjölfar mótmælanna.
Eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku beitti lögregla piparúða á mótmælendur sem sumir hindruðu för ráðherrabíla að loknum ríkisstjórnarfundi. Nokkrir þurftu að leita á bráðamóttöku í kjölfarið.
Þá slasaðist lögreglumaður þegar ráðherrabíl var ekið yfir fótinn hans. Þurfti hann einnig að leita á slysadeild.
Nefnd um eftirlit með lögreglu hefur verklag lögreglu á mótmælunum til skoðunar. Kallaði nefndin eftir upptökum úr búkmyndavélum og eftirlitsmyndavélum á svæðinu eftir að myndefni frá mótmælunum birtist í fjölmiðlum.