Hin árlega flugeldasýning á Jökulsárlóni verður ekki haldin í ár. Sýningin í fyrra var líklega sú síðasta. Þetta kemur fram í tilkynningu björgunarfélags Hornafjarðar til bakhjarla sveitarinnar.
Flugeldasýning hefur verið haldin árlega á Jökulsárlóni frá síðustu aldamótum, að undanskildu einu áranna sem kennd hafa verið við faraldur kórónuveiru.
Björgunarfélag Hornafjarðar hefur smám saman tekið við flugeldasýningunni af staðarhöldurum. Síðustu ár hefur það verið svo að sýningin hefur verið ein af stærstu fjáröflunum björgunarsveitarinnar ár hvert.
Í desember í fyrra sótti björgunarfélagið um leyfi hjá Vatnajökulsþjóðgarði til að halda flugeldasýninguna á Jökulsárlóni í ágúst 2024.
„Eftir langa bið barst okkur loksins svar 30. maí síðastliðinn. Niðurstaða Vatnajökulsþjóðgarðs var sú að umsókn um leyfi til að halda flugeldasýningu var hafnað og voru nokkrar ástæður tilgreindar í svarbréfi þjóðgarðsins,“ segir í tilkynningu björgunarfélagsins, án þess að frekar sé sagt til um hverjar þær uppgefnu ástæður hafi verið.
Tímasetningin er sögð koma sér afar illa því björgunarfélagið stendur nú í tveimur stórum og fjárfrekum verkefnum.
Annars vegar er það bygging nýs björgunarsveitarhús yfir starfsemi björgunarfélags Hornafjarðar og slysavarnadeildarinnar Framtíðarinnar.
Hins vegar kaup og breyting á nýrri bifreið sem verður notuð til leitar og björgunarstarfa hjá sveitinni, en þau störf eru að stóru leyti innan Vatnajökulsþjóðgarðs.