Áfram er virkni í einum gíg í eldgosinu við Sundhnúkagíga en vika er liðin frá því það hófst, það fimmta í röðinni á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember.
Að sögn Elísabetar Pálmadóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, er gosið stöðugt en eftir nokkuð kröftuga byrjun dróst virknin saman í þrjá gíga sem voru virkir um helgina. Í fyrrinótt varð breyting á virkninni og nú er aðeins einn gígur virkur.
„Óróinn er svipaður og virknin er stöðug og það mallar ennþá í þessum eina gíg sem virðist vera virkur,“ segir Elísabet en gígurinn sem ennþá er virkur er staðsettur rétt við þann gíg sem gaus lengst úr í eldgosinu sem hófst 16. mars og endaði 9. maí.
Hraunstraumar úr þeim gíg sem er virkur eru til norðvesturs að Sýlingarfelli og meðfram því að norðan. Einnig eru virkir hraunstraumar til suðurs í átt að Hagafelli.