Heimspressan fjallar um forsetakjör Höllu

Halla hlaut ríflega 34% atkvæða í kosningunum og Katrín rúmlega …
Halla hlaut ríflega 34% atkvæða í kosningunum og Katrín rúmlega 25%. Samsett mynd/Skjáskot/Reuters/Al Jazeera/Bloomberg/Le Monde/Euronews/India TV news

Fréttamiðlar víða um heiminn hafa á síðustu dögum fjallað um forsetakjör Höllu Tómasdóttur, en þann 1. ágúst verður hún sjöundi forseti lýðveldisins.

Flestir erlendir fjölmiðlar vekja athygli á því að hún komi úr viðskiptaheiminum og að hún hafi borið sigur úr býtum gegn Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. 

Reuters segir í sinni frétt að forsetaembættið á Íslandi sé aðallega formlegt (e. ceremonial) og án mikilla valda. Þá lýsir miðillinn Höllu sem athafnakonu. 

Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands. mbl.is/Brynjólfur Löve

Kannanir ekki gert ráð fyrir slíkum sigri

Frétt Bloomberg er skrifuð af íslenskum fréttaritara, Ragnhildi Sigurðardóttur, og þar er Höllu lýst sem frumkvöðli og fjárfesti. Í þeirri frétt er vakin sérstök athygli á því að Ísland hafi verið fyrsta ríkið til að kjósa konu sem forseta árið 1980. 

Franska dagblaðið Le Monde greinir einnig frá kjöri Höllu og í frétt Le Monde er sagt frá því hvernig skoðanakannanir hafi ekki gert ráð fyrir jafn afgerandi sigri og raun bar vitni. 

Halla hlaut ríflega 34% atkvæða í kosningunum og Katrín rúmlega 25%.

Katarski miðillinn Al Jazeera vekur sérstaka athygli á því í inngangi fréttarinnar að þeir þrír frambjóðendur sem hlutu mest fylgi hafi verið konur. 

Þá fjalla aðrir miðlar í Kína, Indlandi, Norðurlöndum og víðar um forsetakjör Höllu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert