Hermann Nökkvi Gunnarsson
Fréttamiðlar víða um heiminn hafa á síðustu dögum fjallað um forsetakjör Höllu Tómasdóttur, en þann 1. ágúst verður hún sjöundi forseti lýðveldisins.
Flestir erlendir fjölmiðlar vekja athygli á því að hún komi úr viðskiptaheiminum og að hún hafi borið sigur úr býtum gegn Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands.
Reuters segir í sinni frétt að forsetaembættið á Íslandi sé aðallega formlegt (e. ceremonial) og án mikilla valda. Þá lýsir miðillinn Höllu sem athafnakonu.
Frétt Bloomberg er skrifuð af íslenskum fréttaritara, Ragnhildi Sigurðardóttur, og þar er Höllu lýst sem frumkvöðli og fjárfesti. Í þeirri frétt er vakin sérstök athygli á því að Ísland hafi verið fyrsta ríkið til að kjósa konu sem forseta árið 1980.
Franska dagblaðið Le Monde greinir einnig frá kjöri Höllu og í frétt Le Monde er sagt frá því hvernig skoðanakannanir hafi ekki gert ráð fyrir jafn afgerandi sigri og raun bar vitni.
Halla hlaut ríflega 34% atkvæða í kosningunum og Katrín rúmlega 25%.
Katarski miðillinn Al Jazeera vekur sérstaka athygli á því í inngangi fréttarinnar að þeir þrír frambjóðendur sem hlutu mest fylgi hafi verið konur.
Þá fjalla aðrir miðlar í Kína, Indlandi, Norðurlöndum og víðar um forsetakjör Höllu.