Hvessti sig við ungan dreng á ensku í Krónunni

María Nsamba ásamt eiginmanni sínum Martin Nsamba og syni þeirra …
María Nsamba ásamt eiginmanni sínum Martin Nsamba og syni þeirra Rodney Nsamba. Ljósmynd/Aðsend

Móðir ungs drengs sem er dökkur á hörund kveðst forviða yfir dónaskap og skorti á umburðarlyndi á meðal landsmanna. 

María Nsamba tók á móti hryggum syni úr Krónunni í gær eftir að annar viðskiptavinur í versluninni hvæsti á hann á ensku. Sonur Maríu, Rodney, er 12 ára gamall og hafði fengið leyfi til að fara í Krónuna og kaupa sér sparinesti fyrir skólann. 

„Hann sagði að það hefði verið mikið að gera rétt fyrir lokun og það er kona þarna sem hreytir í hann hurry up,“ segir María í samtali við mbl.is.

Báðu um „N-orðs passa“

Henni hafi þótt mikilvægt að taka upp hanskann fyrir son sinn og reyna að koma í veg fyrir að slík atvik hendi í framtíðinni. Hún hafi ákveðið að birta færslu um atvikið í Facebook-hópi ætluðum íbúum Mosfellsbæjar til að minna fólk á að sýna umburðarlyndi og kurteisi í garð allra. 

„Ekki gera ráð fyrir því að fólk sé ekki íslenskumælandi.“

Hún segir Íslendinga enn eiga nokkuð í land með að aðlagast fjölbreyttari mannflóru og fólki með mismunandi litaraft. Sem dæmi hafi sonur hennar lent í því að skólabræður hans hafi spurt hvort þeir mættu fá „frípassa“ til að segja „N-orðið“. 

„Ég sagði við hann aldrei nokkurn tímann skalt þú leyfa einhverjum að tala svona til þín.“

Atvikið átti sér stað í Krónunni þar sem Rodney var …
Atvikið átti sér stað í Krónunni þar sem Rodney var að versla sér sparinesti. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Krossbrá og svaraði á ensku

Hún segir mikið fát hafa komið á drenginn í Krónunni enda hafi hann verið einsamall í búðinni. Hann hafi sömuleiðis ekki verið í neinum vandræðum með að greiða fyrir þær tvær vörur sem hann var með og konan því hvesst sig að ástæðulausu.

Honum hafi brugðið svo mikið að hann hafi svarað á ensku að hann skyldi vera snöggur. Hann hafi þó komið leiður heim enda þótt atvikið óþægilegt.

María segir með ólíkindum að fólk ávarpi börn, eða fullorðna, af slíkum dónaskap en verst þyki henni að konan ávarpi drenginn á ensku vegna húðlitar hans. 

„Hún byrjar ekki á að ávarpa hann á íslensku, sem að maður á að gera. Þú gerir ekki ráð fyrir því að einhver sé enskumælandi bara að því hann er öðruvísi á litinn. Í öðru lagi af hverju bauð hún ekki fram aðstoð ef hún hélt að hann væri í einhverjum vandræðum?“ 

Mikilvægt að ávarpa fólk á íslensku

María segir Rodney upphaflega vera frá Úganda líkt og eiginmaður hennar, en hún hafi verið stjúpmóðir hans frá því að hann var sjö ára. Rodney hafi flust til Íslands til að vera hjá henni og föður sínum fyrir ári og hafi lagt nám á íslensku síðan og gangi í íslenskan grunnskóla. 

„Hann talar alveg íslensku þó hún sé bjöguð. Hún bara ákvað að hann kynni ekki íslensku,“ segir María en aðspurð segir hún Rodney og konuna ekki hafa átt í neinum orðaskiptum fyrir þetta. 

Mikilvægt sé að ávarpa fólk á því tungumáli sem sé talað í hverju landi enda geti fólk hafa búið hér allt sitt líf eða verið fætt hér á landi þrátt fyrir að vera dekkra á hörund.

Segir María eiginmann sinn ítrekað verða fyrir því að fólk ávarpi hann á ensku í staðinn fyrir á íslensku. Eiginmaður hennar sé aftur á móti fullorðinn, ekki brattur á íslensku og betur í stakk búinn til að takast á við slíkt sjálfur.

„Sonur minn er það aftur á móti ekki, talar íslensku og er í íslenskuskóla,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert