„Það var kominn tími á viðhald á Mosfellskirkju og við höfðum grun um að það gætu verið rakaskemmdir, sem varð til þess að við fengum Eflu til að gera úttekt á kirkjunni,“ segir Ólína Kristín Margeirsdóttir, formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar, en Mosfellskirkja var vígð árið 1965.
Í ljós kom að rakaskemmdir voru í kirkjunni og að tími væri kominn á gagngerar endurbætur. Í kjölfarið ákvað sóknarnefnd Lágafellssóknar að loka kirkjunni um óákveðinn tíma þar til ákvörðun verður tekin um næstu skref. „Við vildum ekki bjóða hættunni heim og hafa þjónustu í kirkjunni þegar þetta lá ljóst fyrir,“ bætir hún við.
Ólína segir að legið hafi á borðinu lengi hugmyndir um að byggja nýja kirkju í Mosfellsbæ, en það sé gríðarlega dýrt og ekki á færi sóknarinnar eins og staðan er. „Það er engin sókn sem hefur handbært fé til að byggja nýja kirkju í dag,“ segir hún.
Sjá meira um málið í Morgunblaðinu i dag.