Björgunarskipið Þór siglir nú vestur meðfram landinu með skútu í togi sem lenti í töluverðum vandræðum djúpt suður af landinu skömmu eftir miðnætti í gærkvöldi.
„Þeir eru búnir að vera í fjögurra til fimm metra ölduhæð og 15 m/s vindi að norðan síðan í nótt,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, sem gerir ráð fyrir að Þór komi með skútuna til hafnar í Vestmannaeyjum einhvern tímann í kvöld.
„Þegar þeir tóku skútuna í tog snemma í morgun þá stefndu þeir bara í norður, beint upp í ölduna og vindinn, til að komast upp í lygnari sjó,“ segir Jón Þór sem útskýrir að skútan hafi verið staðsett 60-70 mílur suðvestur af Vestmannaeyjum þegar útkallið barst.
Aðspurður segir hann aðgerðina ganga vel en áréttir að þegar sjólag er þetta slæmt og ölduhæð þetta mikið þá fari menn rólega. Auk þess eru tólf manns um borð í skútunni og segir Jón Þór þau orðin lúin.
„Þau taka bara stuttar vaktir hvert og eitt við stýrið á skútunni, en það eru allir enn um borð í skútunni.“
Eins og mbl.is greindi frá í morgun barst björgunarskipinu Þór útkall vegna skútunnar skömmu eftir miðnætti í gærkvöldi. Skútan hafði lent í töluverðum vandræðum þar sem segl hennar rifnaði og eldsneytismagnið var af svo skornum skammti að fólkið gerði ekki ráð fyrir að ná til Vestmannaeyja.
Þór var sendur af stað með eldsneyti en í millitíðinni varð skútan vélarvana og stjórnlaus vegna þess að hún fékk tóg í skrúfuna. Þetta urðu þó ekki einu vandræðin því í morgun kom jafnframt smávægilegur leki á skútuna.
Jón Þór segir lekann þó hafa verið viðráðanlegan og að nú sé hópurinn að dóla meðfram landinu í aðeins lygnari sjó heldur en í nótt.
mbl.is greindi jafnframt frá því í morgun að strandveiðibátur hefði lent í vélarvandræðum norður af Patreksfirði og var björgunarskipið Vörður á Patreksfirði kallað út á áttunda tímanum vegna þess.
Jón Þór segir þá björgunaraðgerð hafa gengið vel. Taug hafi verið komið fyrir í strandveiðibátinn og var Vörður kominn til hafnar á Patreksfirði með bátinn í togi rétt fyrir klukkan ellefu í morgun.