Landlæknir fellir niður mál Vals Helga

Valur Helgi Kristinsson var ásakaður um að nota Heilsuveru á …
Valur Helgi Kristinsson var ásakaður um að nota Heilsuveru á óeðlilegan hátt. Ljósmynd/Heilsuvernd

Embætti landlæknis hefur fellt niður eftirlitsmál varðandi notkun Vals Helga Kristinssonar, heimilislæknis hjá Heilsugæslunni Urðarhvarfi, á skilaboðakerfi Heilsuveru. Frá þessu greinir Heilsuvernd á Facebook.

Þar segir að mikið veður hafi verið gert úr málinu í umfjöllun fjölmiðla um að Valur hafi notað Heilsuveru á óeðlilegan hátt til að hafa samskipti skjólstæðinga sína. Valur hafi sinnt þeim sömu skjólstæðingum um árabil á Akureyri. 

Stormur í vatnsglasi

Sérfræðingar landlæknis fóru að sögn Heilsuverndar vandlega yfir svör og röksemdafærslu Vals og töldu að með svörum hans hafi hann útskýrt málið með fullnægjandi hætti. Málinu hafi því verið lokað í málaskrá embættisins.

„Valur naut liðsinnis Heilsugæslunnar í Urðarhvarfi og Læknafélags Íslands við að svara þeim 15 spurningum sem beint var að honum vegna málsins sem við töldum frá upphafi vera storm í vatnsglasi,“ segir í tilkynningu Heilsuverndar.

Þá hafi Heilsuvernd sérstaklega komið á framfæri því að ekkert óeðlilegt hafi verið talið hafa átt sér stað.

„Við fögnum þessari niðurstöðu innilega og að búið sé að hreinsa þessar ávirðingar með skýrum og formlegum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert