Landsvirkjun hafði betur í Hæstarétti

Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar í dómi sem féll í dag.
Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar í dómi sem féll í dag. Samsett mynd

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Landsréttar um að óheimilt hafi verið að leggja á Landsvirkjun aflgjald vegna innmötunar raforku á flutningskerfi Landsnets samkvæmt gjaldskrá.

Í málinu deildu Landsvirkjun, Landsnet og Orkustofnun um heimild Landsnets til að leggja aflgjald á Landsvirkjun fyrir innmötun raforku.

Aðila málsins greindi á um hvort ákvæði raforkulaga veitti Landsneti sem flutningsfyrirtæki heimild til að leggja gjaldið á Landsvirkjun og önnur fyrirtæki. Einnig var deilt um hvort aðkoma Orkustofnunar að ákvörðun um gjaldtökuna hafi verið þess eðlis að stofnunin geti talist aðili máls.

Heimild til að leggja úttektargjöld

Landsvirkjun byggði meðal annars á því að með setningu raforkulaga hefði ekki verið fyrir hendi heimild til töku innmötunargjalds en að heimilt væri að leggja úttektargjald á þann sem panti og noti raforkuna.

Landsvirkjun benti einnig á að ýmsir ágallar hefðu verið við undirbúning gjaldskrárbreytinganna. Sérstaklega hvað varðar andmælarétt gjaldenda, efnislegt innihald með tilliti til réttra og málefnalegra forsendna og mat á nauðsyn aðlögunartíma fyrir gjaldendur.

Aftur á móti byggðu Orkustofnun og Landsnet á því að lagaheimild til innheimtu gjaldsins væri að finna í  1. mgr. 12. gr. a. raforkulaga. Samkvæmt ákvæðinu skuli flutningsfyrirtæki, sem Landsnet er í málinu, setja gjaldskrá í samræmi við tekjumörk sem Orkustofnun setur. Einstakir gjaldskrárþættir séu ekki afmarkaðri að öðru leyti en að gjaldskrá skuli vera í samræmi við tekjumörk.

Þar að auki er því haldið fram að aflgjaldið sé tegund af innmötunargjaldi og því sé röng forsenda í dómi Landsréttar að afhendingargjaldið sé annars eðlis en gjald fyrir innmötun.

Ákvæði felur ekki í sér lagastoð fyrir gjaldi

Í niðurstöðum Hæstaréttar segir að ákvæði raforkulaga um tekjumörk verði ekki talið fela í sér lagastoð fyrir innheimtu aflgjalds vegna innmötunar raforku úr hendi Landsvirkjunar.

Markmið ákvæðisins sé að hvetja til hagræðingar í rekstri flutningsfyrirtækisins og tryggja að tekjur séu í samræmi við kostnað við þjónustuna sem Landsneti er falið að veita.

Hæstiréttur taldi Orkustofnun réttan aðila máls þar sem stofnunin hafði aðkomu og eftirlitshlutverk gagnvart gjaldtökunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert