Álfrún Lind Helgadóttir, nýjasti dúx Menntaskólans í Reykjavík, útskrifaðist á föstudaginn af brautinni náttúrufræði 1 með 9,765 í meðaleinkunn. Hún stefnir á nám í læknisfræði og las 111 bækur á síðasta ári.
Spurð hvort markmiðið hafi verið að dúxa svarar Álfrún: „Nei, alls, alls ekki. Ég var ekki alveg að trúa þessu. Markmið mitt fyrir árið hafði verið að ná yfir níu í meðaleinkunn en ég stefndi aldrei að því að verða dúx. Það kom ekki til greina í mínum huga.“
Hún þakkar góðan námsárangur skipulagi og því að vinna jafnt og þétt í gegnum námið en segir jafnframt: „Ég þekki líka minn námsstíl vel, hvernig það hentar mér best að læra. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Líka að hafa áhuga á náminu því þá er mun auðveldara og skemmtilegra að læra.“
Álfrún segir mikilvægt í svona stressandi námi að vera ekki með of mikið álag utan skóla en hún leggur áherslu á að eyða tíma með vinum og fjölskyldu og að sinna áhugamálum sínum.
Álfrún er lestrarhestur og las 111 bækur í fyrra.
„Ég les mestmegnis skáldsögur, allskonar skáldsögur svo lengi sem þær eru ekki of sorglegar,“ segir Álfrún.
Hún segist ekki eiga sér uppáhalds bók en segir skáldsöguna Kirka eftir Madeline Miller hafa staðið upp úr af þeim 111 bókum sem hún las á síðasta ári.
Spurð út í framtíðaráform segir Álfrún: „Næst á dagskrá er að taka inntökuprófið í læknisfræði en ég er ekkert búin að læra mikið fyrir það þannig ég ætla bara að sjá hvernig það fer.“
Annars er Álfrún á leið í útskriftarferð til Spánar seinna í júní og mun starfa í Bláa lóninu í sumar.