Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, mun persónulega hafa samband við ráðherra og þingmann Vinstri grænna (VG) vegna ummæla þeirra um lögreglumenn í kjölfar mótmælanna við Skuggasund í síðustu viku.
„Lögreglumenn eru vægast sagt dálítið pirraðir á þessari orðræðu því þeir telja sig bara vera að vinna vinnuna sína. Vissulega geta einstaklingar farið yfir mörkin, það bara því miður gerist, en við sjálf reynum að hafa eftirlit með hvort öðru og svo er eftirlitsnefnd,“ segir Fjölnir í samtali við mbl.is um ummæli Jódísar Skúladóttur, þingmanns VG.
Jódís sagði á Alþingi í gær að hún læsi nær daglega um lögreglu sem fari offari í aðgerðum sínum og beiti valdi og hörku gegn almennum borgurum.
Á föstudaginn beittu lögreglumenn piparúða gegn mótmælendum þar sem þeir lágu á veginum og hindruðu för ráðherra að loknum fundi ríkisstjórnar við Skuggasund.
Er svona orðræða til þess fallin að kasta rýrð á lögreglustéttina í heild sinni?
„Já mér finnst það. Mér finnst eins og fólki langi dálítið til að búa í Bandaríkjunum og haldi að það sé alltaf eitthvað voðalegt lögregluofbeldi. Ég held að lögregluofbeldi sé nú eitthvað allt annað en að dreifa einhverjum mótmælendum,“ svarar Fjölnir.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, hefur beðið ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins um að fara yfir verkferla og ákvarðanir lögreglu.
Hann stýrði ríkisstjórnarfundinum á föstudag í fjarveru Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
Í færslu á Instagram sagði Guðmundur Ingi að lögreglan hefði beitt valdi gagnvart borgurum sem hefðu verið að nýta lýðræðislegan rétt sinn til mótmæla.
„Ég er búinn að fá mörg símtöl frá lögreglumönnum þar sem ég er beðinn um að gera bæði athugasemdir við þessi orð Jódísar og ekki síður orð Guðmundar Ingar, þegar hann vildi að forsætisráðuneytið myndi skoða einhver mótmæli. Við erum með eftirlitsstofnun sem sér um svona og hún hefur sýnt sig að hún stendur undir sínu og hefur eftirlit með lögreglunni – fær alltaf öll gögn,“ segir Fjölnir.
Kveðst hann gera ráð fyrir því að hafa samband persónulega við bæði Guðmund Inga og Jódísi.
Landssamband lögreglumanna hefur ekki rætt aðgerðir lögreglumanna í mótmælunum formlega en að sögn Fjölnis á eftir að skoða myndefni úr búkmyndavélum og fleira.
Hann minnir á að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi strax beðið um myndefni úr búkmyndavélum eftir aðgerðirnar.
„Það er bannað að loka götum án þess að fá leyfi frá lögreglu og þér ber að hlýða lögreglu, við lítum þannig á það. En það er ofboðslega erfitt fyrir okkur að dæma út frá þessum myndum [sem eru í dreifingu] hvort að meðalhófi hafi verið gætt eða ekki. Við vitum ekki hvað gekk á á undan, hversu oft var búið að biðja fólk um að færa sig með öðrum aðferðum,“ segir hann.
Hann vísar í orð Kristjáns Helga Þráinssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem sagði að meiri mannskap hefði þurft til að reyna aðrar aðferðir og nefnir Fjölnir að það þurfi fleiri lögreglumenn.
„Eins og ég skil þetta þá voru þeir margbúnir að biðja fólk um að fara af götunni og það fór alltaf aftur, af því að lögreglan hafði kannski ekki nógu mikinn mannskap til að raða sér upp eftir götunni svo enginn kæmist fram hjá þeim,“ segir Fjölnir og bætir við að þetta sé einbeittur brotavilji hjá mótmælendum að leggjast alltaf aftur á götuna.