Meirihlutinn í bæjarstjórn klofinn

Einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu ásamt Framsókn gegn vilja …
Einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu ásamt Framsókn gegn vilja annarra bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eiga í meirihlutasamstarfi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bæjarstjórnarmeirihlutinn í Suðurnesjabæ klofnaði í afgreiðslu tillögu um staðsetningu gervigrasvallar nú í kvöld.

Kusu tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, oddviti þar með talinn, ekki með tillögu Framsóknar og eins bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundi fyrr í kvöld.

Seinna á fundinum var þessum eina bæjarfulltrúa skipt úr bæjarráði og oddviti Sjálfstæðisflokksins tók sæti í hans stað. 

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eiga í meirihlutasamstarfi og á bæjarráðsfundi í síðustu viku lögðu fulltrúar í bæjarráði, Magnús S. Magnússon (D) og Anton Kristinn Guðmundsson (B), fram tillögu um að gervigrasvöllur yrði í Sandgerði.

Var sú tillaga þvert gegn tillögu samráðshóps sem lagði til að gervigrasvöllurinn yrði sett­ur á svæði gamla mal­ar­vall­ar­ins í Garði. Aðeins þrír fulltrúar skipa bæjarráð og felldu Anton og Magnús tillögu samráðshópsins.

Vissi ekki af tillögunni 

Einar Jón Pálsson, forseti bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því á fundi bæjarstjórnar í kvöld að hann hefði ekki vitað fyrir fund bæjarráðs af tillögunni sem var lögð fram af Magnúsi og Antoni.

Hann sagði einnig að tillaga þeirra væri til þess fallin að sundra samfélaginu heldur en að sameina. Kvaðst hann og annar bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ásamt bæjarfulltrúum O-listans, styðja upphaflega tillögu samráðsteymis.

Magnúsi skipt úr bæjarráði

Atkvæði féllu þannig í kvöld að tillaga Framsóknar og Magnúsar var samþykkt með atkvæðum Framsóknar, Magnúsar og Samfylkingarinnar. Tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu gegn tillögunni ásamt bæjarfulltrúum O-listans.

Á fundinum stóð til að gera breytingar á skipun fulltrúa í bæjarráði lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu þess efnis að skipta Magnúsi úr bæjarráði og þess í stað færi Einar í bæjarráð. Var sú tillaga samþykkt.

Bæjarfulltrúar Framsóknar og Magnús kusu gegn tillögunni. Meirihlutinn var því bæði klofinn í afstöðu um staðsetningu gervigrasvallarins og um veru Magnúsar í bæjarráði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert