Eftirtektarverður árangur í minnkun lífræns úrgangs

Jón Axelsson fer yfir aðferðir fyrirtækisins við minnkun matarsóunar á …
Jón Axelsson fer yfir aðferðir fyrirtækisins við minnkun matarsóunar á ráðstefnunni í Ríga. Ljósmynd/Aðsend

Skólamatur hefur náð miklum árangri í minnkun lífræns úrgangs, en eftir árið í fyrra hefur nýting hráefna batnað um 30% frá árinu 2017. Árangurinn hefur vakið athygli utan landsteinanna en í lok apríl bauðst fyrirtækinu að taka þátt í norrænni ráðstefnu um matarsóun og nýtingu staðbundinna hráefna.

Ráðstefnan byggðist á rannsókn og niðurstöðum hennar sem var gerð kennsluefnis fyrir matráða og nýtingu staðbundinna hráefna. Var hún haldin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í samstarfi við fulltrúa frá Norðurlöndunum og Eystrarsaltsríkjunum.

Mikill áhugi á árangrinum

„Sem hluti af verkefninu, komu fulltrúar frá Ráðherranefndinni í heimsókn í Skólamat til að kynna sér aðstæður og sjá hvað við höfum verið að gera í nýtingu hráefna. Í kjölfarið var okkur boðið á þessa ráðstefnu sem var haldin í Riga,“ segir Jón Axelsson, framkvæmdastjóri Skólamatar.

Að sögn Jóns var mikill áhugi þátttakenda á ráðstefnunni fyrir starfsemi Skólamatar og hvernig fyrirtækið hefur nýtt tölvu- og gæðakerfi til að stuðla að minnkun á matarsóun og búa til mælikvarða til að fá samanburðarhæf gögn milli ára. Aðferðin felur meðal annars í sér að virkja notendur og upplýsa nemendur.

Virkja nemendur

Fjölskyldufyrirtækið Skólamatur sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum. Starfsemi fyrirtækisins hverfist að miklu leyti um markmiðasetningu og mælingar þegar kemur að nýtingu matar og matarsóun.

Jón leggur áherslu á mikilvægi þess að virkja sem flesta í ferlinu þegar kemur að minnkun matarsóunar.

Skólamatur hefur sýnt fram á mikilvægi þess að virkja nemendur …
Skólamatur hefur sýnt fram á mikilvægi þess að virkja nemendur þegar kemur að því að sporna gegn matarsóun. Ljósmynd/Aðsend

„Einn mælikvarðinn er að mæla lífrænan úrgang sem verður af diskum nemenda. Við vigtum afganga og deilum í fjölda á hverjum stað og fáum þá fjölda á hvern disk. Með þessu náðist metárangur í minnkun matarsóunar á síðasta ári,“ sagði Jón. „Nemendur fá fræðslu um mikilvægi þess að skammta hóflega á hvern disk og fá sér frekar ábót.“  

Þá hafa gögn sýnt að ýmsir þættir geta haft áhrif á matarsóun til að mynda aðstæður í matsal, hljóðvist, þrengsli, aðgengi að sjálfskömmtunarlínu, mataráhöld eða uppröðun áhalda og matar í línunni. Viðmót starfsfólks skiptir einnig máli og samstarf við nemendur.

Aðspurður segir Jón að nýting staðbundinna hráefna feli í sér bæði umhverfismál og gæðamál.

„Staðbundin hráefni myndi ég segja að væru meiri gæði, það þýðir minni flutningur og minni geymsla.“

Þá á Jón við að með notkun staðbundinna hráefna sé meiri þekking á meðhöndlun þeirra. Með því að nýta það sem er í nærumhverfinu minnka flutningaleiðir og hægt verður að tryggja betri gæði.

Mælanleg markmið

Jón segir að miðað við áhugann sem hafi verið sýndur á aðferðum Skólamatar þá mætti ætla að þeir standi frekar framarlega þegar kemur að nýtingu hráefna. Hann segist ekki hafa séð samanburðartölur frá hinum löndunum á ráðstefnunni enda ekki víst að þær liggi fyrir. Segir hann hluta af árangrinum að vera með mælanleg markmið og að geta sýnt niðurstöður.

Á 25 árum hefur Skólamatur stöðugt verið að bæta starfsemina og þróa hana áfram. Sem hefur skilað sér í betri matargerð, betri meðhöndlun og vali á hráefnum, betri eldunaraðferðum og endurskoðun flutningaleiða.

„Það er vissulega áhugavert verkefni að vinna að því að gefa nemendum í leik- og grunnskólum hollan og góðan mat á umhverfisvænan hátt,“ sagði Jón að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert