Mikill kurr er í bæjarpólitíkinni og íþróttalífinu í Suðurnesjabæ þar sem klofnings gætir í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar vegna ágreinings um gervigrasvöll.
Á síðasta bæjarráðsfundi ákváðu fulltrúar meirihlutans úr Framsókn og Sjálfstæðisflokknum að leggja fram tillögu um að gervigrasvöllurinn yrði í Sandgerði en ekki Garði. Bæjarráð Suðurnesjabæjar er skipað þremur fulltrúum, tveimur frá meirihlutanum og einum frá O-lista.
Heimildir mbl.is herma að ákvörðun bæjarráðsfulltrúa Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins hafi komið öðrum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að óvörum.
Samráðsteymi var skipað þann 26. mars og í því voru íþrótta- og tómstundafulltrúi og starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs. Þá var formanni knattspyrnudeildar Víðis og formanni aðalstjórnar Reynis boðið á fund teymisins.
„Eftir málefnalegar og góðar umræður var ákveðið að leggja til að skoða betur valkostinn gamla malarvöllinn í Garði,“ segir í minnisblaði samráðsteymisins sem sent var á bæjarráð.
Þann 10. maí fundaði teymið aftur þar sem sameiginleg tillaga samráðsteymis og formanna íþróttafélaganna var tekin um að gervigrasvöllurinn yrði settur á svæði gamla malarvallarins í Garði, samkvæmt minnisblaðinu.
Ákvörðun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði, Magnúsar S. Magnússonar, um að leggja fram tillögu ásamt Antoni Kristni Guðmundssyni, bæjarfulltrúa Framsóknar í bæjarráði, um að völlurinn yrði í Sandgerði var því óviðbúin.
Aðrir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfðu gengið út frá því að að tillaga samráðsteymisins yrði samþykkt, að því er heimildir mbl.is herma.
Sólmundur Ingi Einvarðsson, stjórnarmaður og fyrrverandi formaður hjá knattspyrnufélaginu Víði, skrifaði færslu á Facebook þar sem hann sagði meðal annars:
„Ég spyr mig hvernig þeir Anton og Magnús réttlæta það fyrir sjálfum sér og íbúum bæjarins þessa ákvörðum og vinnuhætti. Þeir skipuðu sérstakt teymi með nákvæmlega þetta hlutverk, að komast að niðurstöðu um staðsetningu, sem unnin yrði af fulltrúum beggja félaga. Í framhaldi þess þegar tillagan er svo kynnt, er henni hreinlega grýtt til hliðar, og vinna teymisins því til einskis. Ég spyr sömuleiðis hvort aðrir fulltrúar meirihlutasamstarfs B- og D-lista ætli að leyfa þessum vinnubrögðum að viðgangast.“
Bæjarstjórnarfundur er áætlaður í kvöld og er ekki ljóst hvort að meirihlutinn verði samstiga í ákvörðun sinni.