Stal tveimur símum og tekinn af löggunni 16 sinnum

Maðurinn játaði brot sín skýlaust í þinghaldi.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust í þinghaldi. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann í 90 daga fangelsi og til greiðslu sektar sem nemur 3,4 milljónum króna.

Manninum var einnig gert að greiða samtals 414.374 krónur til ýmissa fyrirtækja vegna þjófnaðar en hann var jafnframt sviptur ökurétti í fimm ár.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa stolið tveimur farsímum, tveimur tölvuúrum, Adidas-skóm, gosflöskum og límbandsrúllum. Hann játaði skýlaust brot sín og viðurkenndi bótaskyldu.

Brotin framin frá janúar til júní sama árs

Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa 16 sinnum ekið ýmist undir áhrifum vímuefna, án ökuréttar eða á ofsahraða.

Fyrsta umferðarlagabrotið var 8. janúar 2023 þegar hann ók bifreið án gildra ökuréttinda og undir áhrifa ávana- og fíkniefna við Suðurlandsbraut. Hafði hann jafnframt kókaín í vörslum sínum.

Aðeins nokkrum dögum síðar eða 20. janúar 2023 ók hann aftur undir áhrifum áfengis og vímuefna ásamt því að hafa verið sviptur ökurétti stuttu áður. Svo var hann um miðjan febrúar staðinn að því að aka bifreið um Sæbraut þar sem hann hafði ekki ökuréttindi.

Voru umferðarlagabrotin öll framin á tímabilinu janúar 2023 til loka júní sama árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert