Taka stöðuna á lokunum um hringveginn á hádegi

Vegagerðin mun endurmeta stöðuna á lokunum við hringveginn á hádegi.
Vegagerðin mun endurmeta stöðuna á lokunum við hringveginn á hádegi. mbl.is/Hari

Óvíst er hvort hringvegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi og frá Höfn að Djúpavogi verði opnaðir í dag. Vegagerðin mun meta stöðuna um hádegi. 

Sverrir Unnsteinsson, þjónustufulltrúi Vegagerðarinnar, segir grannt fylgst með stöðunni og að vegir verði opnaðir ef tækifæri gefst. 

Áfram óvissa þó vegir verði opnaðir 

Hringveginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi var lokað upp úr klukkan 20 á mánudagskvöld og hefur ekki verið opnaður síðan. Sverrir segir veðurspá fyrir svæðið ekki sérlega góða en áréttir að staðan verði endurmetin um hádegi. 

Hringveginum frá Höfn að Djúpavogi var jafnframt lokað á mánudagskvöld og hefur hann heldur ekki verið opnaður síðan. Sverrir segir einhverjar líkur á að veður gangi niður á svæðinu eftir hádegi þannig að hægt verði að opna veginn. 

„Það er alls óvíst samt sem áður og við munum bara verða að sjá til, sjá hvernig vindurinn hagar sér.“

Aðspurður segir hann þó áfram möguleika á því að loka þurfi vegunum á ný enda appelsínugul viðvörun í gildi á svæðinu þar til í fyrramálið, en þá tekur gul viðvörun við og útlit er fyrir leiðindaveður þar til á föstudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert