Þór kallaður út vegna skútu í vandræðum

Björgunarskipið Þór var kallað út skömmu eftir miðnætti í gær …
Björgunarskipið Þór var kallað út skömmu eftir miðnætti í gær vegna Skútu í vandræðum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Björgunarskipið Þór var kallað út skömmu eftir miðnætti í gærkvöldi vegna erlendrar skútu sem hafði lent í töluverðum vandræðum djúpt suður af landinu. 

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir tólf manns hafa verið um borð í skútunni en engin alvarleg meiðsl orðið á fólki.

Haugasjór á vettvangi 

Vandræðin fólust í því að segl skútunnar rifnaði og eldsneytismagnið um borð var af svo skornum skammti að fólkið gerði ekki ráð fyrir að ná til Vestmannaeyja með vélarafli. 

Þór var því sendur af stað með eldsneyti, en að sögn Jón Þórs fékk skútan tóg í skrúfuna í millitíðinni og varð þar með vélarvana og stjórnlaus, en haugasjór var á vettvangi eða fjögurra til fimm metra ölduhæð og stífur vindur.  

Þór kom að skútunni snemma í morgun og segir Jón Þór björgunarskipið nú með skútuna í togi á rólegri siglingu í átt til lands í Vestmannaeyjum. 

Strandveiðibátur í vélavandræðum 

Þá var björgunarskipið Vörður á Patreksfirði kallað út á áttunda tímanum í morgun vegna strandveiðibáts í vélarvandræðum norður af Patreksfirði. Þegar blaðamaður ræddi við Jón Þór var Vörður enn á leið í það verkefni. 

Björgunarskipið Vörður II.
Björgunarskipið Vörður II. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert