ÚNU vinnur að styttingu málsmeðferðartíma

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál heyrir undir forsætisráðherra en skrifstofa hans er …
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál heyrir undir forsætisráðherra en skrifstofa hans er í Stjórnarráðinu. mbl.is/Árni Sæberg

„Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur til skoðunar hvernig stytta megi málsmeðferðartíma nefndarinnar og auka afkastagetu nefndarinnar án þess að það komi niður á gæðum úrlausna.“

Þetta kemur fram í svari nefndarinnar við skriflegri fyrirspurn mbl.is.

„Í því efni hefur mesta þýðingu umfang faglegrar aðstoðar við nefndina við skipulag málsmeðferðar, rannsókn mála og undirbúning úrskurða. Vinna við skoðun þessara þátta fer fram í samráði við forsætisráðuneyti.“

mbl.is hefur flutt fréttir af því að málsmeðferðartími nefndarinnar sé nokkuð langur. Rætt var við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra um málið og sagði hann það eðlilegt að auka afkastagetu nefndarinnar.

„Málsmeðferðartími nefndarinnar síðustu misseri í þeim málum sem lokið hefur með úrskurði er í takt við það sem að meðaltali hefur verið síðastliðin ár. Hluti mála sem eru nú til meðferðar hjá nefndinni er umfangsmikill,“ segir í svarinu.

Meðalaldur málanna 152 dagar

„Í lok maímánaðar 2024 er 81 stjórnsýslukæra fyrirliggjandi hjá nefndinni. Með því er átt við að kæra hafi borist en ekki verið lagður úrskurður á málið af nefndinni.“

Af þessari 81 kæru bárust tvær til nefndarinnar á árinu 2022 og þrjár bárust á fyrri helmingi ársins 2023. Í því felst að fimm af 81 kærumáli, eða 6,2% málanna, séu eldri en eins árs hjá nefndinni. Af tilgreindri 81 kæru barst 21 í maí á þessu ári, eða um 25,9% kærumálanna. Meðalaldur umrædds 81 kærumáls hjá nefndinni er í byrjun júní 2024 152,2 dagar.

„Nefndin vinnur að því að koma þeim málsmeðferðartíma í betra horf,“ segir í svarinu.

Kærumálum fjölgað verulega

Þá kemur fram að kærur sem hafa borist úrskurðarnefndinni frá áramótum til loka maí á árinu 2024 séu samtals 107.

„Á sama tíma hefur nefndin lokið meðferð á 85 málum. Í hluta þeirra mála hefur ekki komið til úrskurðar en máli hefur lokið með öðrum hætti, t.d. þannig að stjórnvald hefur afhent gögn eða afgreitt gagnabeiðni með öðrum hætti áður en til úrskurðar kom,“ segir í svarinu.

„Til og með maí 2024 hefur nefndin kveðið upp úrskurð í 22 kærumálum. Nefndin gerir ráð fyrir að fyrir mitt ár 2024, í lok júní, hafi rúmum 30 málum verið lokið með upp kveðnum úrskurði og að í árslok 2024 verði úrskurðir um 70 til 80 talsins.“

Til samanburðar við framangreindar tölur bárust úrskurðarnefndinni 183 kærumál á árinu 2023 og á árinu 2022 bárust nefndinni 222 kærumál. Kærumálum hafi fjölgað síðastliðinn rúman áratug og til að mynda bárust nefndinni árlega 87 kærumál að meðaltali á árunum 2013 til 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert